Segir hærri dánartíðni fylgja afbrigðinu

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir margt benda til þess að …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir margt benda til þess að B.1.1.7 afbrigðið beri með sér hærri dánartíðni. AFP

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sagði á blaðamannafundi í dag að hærri dánartíðni gæti fylgt B.1.1.7 afbrigði kórónuveirunnar sem hefur náð nokkurri útbreiðslu þar í landi. 

Dauðsföll af völdum veirunnar hafa verið sérstaklega mörg að undanförnu og fleiri sjúkrahúsinnlagnir benda til þessa, allt síðan afbrigðið greindist í suðausturhluta Englands í september síðastliðinn. Afbrigðið hefur greinst í 60 ríkjum til viðbótar, þar á meðal Kína, þar sem faraldurinn hófst. 

„Nú sjáum við vísbendingar um að afbrigðið sé með hærri dánartíðni en talið var, auk þess sem það er meira smitandi líkt og fram hefur komið,“ sagði Johnson á blaðamannafundinum.

Dauðsföllum fjölgað

Undanfarna viku hefur dauðsföllum fjölgað um 16% í Bretlandi og tvöfalt fleiri hafa verið lagðir inn á spítala nú heldur en þegar faraldurinn náði hápunkti sínum í vor. Helsti ráðgjafi stjórnvalda í Bretlandi í sóttvarnamálum, Patric Vallance, sagði að B.1.1.7 gæti borið með sér 30% til 40% meiri dánartíðni hjá ákveðnum aldurshópum.

Þó gætir nokkurrar óvissu um þessar tölur og nauðsynlegt er að rannsaka afbrigðið betur, en þróunin er áhyggjuefni, að sögn Vallance.

mbl.is

Bloggað um fréttina