135 tilfelli B.1.1.7 í Noregi – Finnar loka landamærunum

Bólusett er af kappi í Noregi, en þar, eins og …
Bólusett er af kappi í Noregi, en þar, eins og víða annars staðar, virðast aðföng bóluefna ætla að ganga hægar en upphaflegar vonir stóðu til. Svein Andersen, 67 ára gamall vistmaður Ellingsrud-umönnunarheimilisins í Ósló, var á dögunum fyrsti Norðmaðurinn sem bólusettur var gegn kórónuveirunni. AFP

Í Noregi hafa nú greinst 135 tilfelli af hinu svokallaða „breska afbrigði“ kórónuveirunnar, B.1.1.7 eins og það heitir, þar af 53 síðan í gær, en á sunnudaginn voru greind tilfelli nýja afbrigðisins 70 talsins. Þetta hafa norskir fjölmiðlar eftir Lýðheilsustofnun Noregs, FHI, sem sendi frá sér fréttatilkynningu um stöðuna.

Finnar loka landamærum sínum gagnvart Noregi á miðnætti í kvöld og stendur lokunin til að byrja með til 25. febrúar en frá þessu greindi finnska ríkisútvarpið YLE á laugardaginn auk þess sem dagblaðið Helsingin Sanomat hafði það á mánudag eftir Kristu Kiurun, félagsmálaráðherra Finnlands, að líklegt væri að finnsk stjórnvöld brygðu einnig á það ráð að herða sóttvarnaaðgerðir innanlands. Í fyrradag lokuðu Svíar sínum landamærum eins og mbl.is fjallaði um á sunnudag.

B.1.1.7-veiran hefur nú greinst í sjö fylkjum Noregs og eru tilfellin í Ósló þegar þetta er skrifað 26, þar af sjö á Smestad-hjúkrunarheimilinu skammt frá miðborginni, en að sögn talsmanna heimilisins eru tilfellin eftir því sem best er vitað bundin við eina deild þess enn sem komið er.

Hin fylkin þar sem nýja afbrigðisins hefur orðið vart (Ósló telst eigið fylki) eru Viken, Vestland, Agder, Rogaland, Vestfold og Telemark (nú eitt fylki eftir sameiningu) og Innlandet.

Tvö tilfelli suðurafrísks afbrigðis

Í nokkrum tilfellum hafa sjúklingar, sem greindust með vanalega afbrigði veirunnar í desember og snemma í janúar, nú einnig verið greindir með B.1.1.7-afbrigðið og hafa heilbrigðisyfirvöld farið þess á leit við heilbrigðisstofnanir að gömul próf verði skoðuð á ný, einkum eftir útbreiðslu breska afbrigðisins í sveitarfélaginu Follo í síðustu viku, til að kanna hvort þau kunni að innihalda stökkbreyttar veirur.

Auk þess hafa tvö tilfelli suðurafrísks afbrigðis kórónuveirunnar greinst í Noregi og eru þau bæði rakin til fólks sem nýverið var á ferð erlendis.

„Breska afbrigðið og afbrigðið frá Suður-Afríku virðast mun smitgjarnari en venjulega kórónuveiran, en ekki er hægt að segja til um hve miklu munar á smiteiginleikum þeirra miðað við „gömlu“ afbrigðin. Miðað við vitneskju okkar í dag er ekki talin hætta á alvarlegum veikindum vegna nýju afbrigðanna,“ segir í tilkynningu FHI.

NRK

VG

Nettavisen

Helsingin Sanomat (fréttin er á finnsku)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert