Hækka viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógnar

Talið er að hættan muni vofa yfir í nokkrar vikur …
Talið er að hættan muni vofa yfir í nokkrar vikur hið minnsta. AFP

Inn­an­rík­is­ör­ygg­is­mála­deild bandaríska alrík­is­ins (Department of Homeland Security) sendi í dag frá sér tilkynningu um að viðbúnaðarstig í landinu yrði hækkað vegna mögulegs ofbeldis öfgamanna eða innlendra hryðjuverkamanna eftir innsetningu Joe Biden í embætti forseta Bandaríkjanna.

Tilkynningin var send út í nafni David Pekoske, starfandi yfirmanns inn­an­rík­is­ör­ygg­is­mála­deildarinnar, og það kemur fram að ástæðan sé „aukin hætta á yfirvofandi hættu þvert yfir Bandaríkin“. Talið er að hættan muni vofa yfir í nokkrar vikur hið minnsta.

„Upplýsingar benda til þess að ofbeldishneigðir öfgamenn sem af hugmyndafræðilegum ástæðum eru andsnúnir stjórnvöldum og forsetaskiptunum, auk annarra sem knúðir eru áfram af falsfréttum, gætu haldið áfram að hvetja til eða fremja ofbeldisverk,“ segir í tilkynningunni. CNN greinir frá.

Talið er að ofbeldið og innrásin inn í bandaríska þinghúsið 6. janúar geti endurtekið sig eða að svipaðir atburðir gætu gerst á öðrum stöðum í Bandaríkjunum. Fimm létu lífið í innrásinni, þar á meðal einn lögreglumaður.

Gæslan við þinghúsið í Washington DC og þinghús einstakra ríkja …
Gæslan við þinghúsið í Washington DC og þinghús einstakra ríkja hefur verið aukin til muna eftir innrásina 6. janúar. AFP

Donald Trump, fyrrum forseti Bandaríkjanna, hefur verið ákærður af þinginu fyrir að hvetja til uppreisnarinnar. Þá er búið að bera kennsl á 400 manns sem grunaðir eru um þáttöku í innrásinni og 135 hafa verið handteknir af því er fram kemur á BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert