Svíar óttast nýja bylgju

AFP

Sænsk yfirvöld óttast að þriðja bylgjan sé á leiðinni þangað og hafa kynnt nýjar reglur sem fela í sér heimild yfirvalda til að loka stórum hluta athafnalífs landsins ef þörf þykir án mikils fyrirvara. Þetta var kynnt á blaðamannafundi heilbrigðis- og menningarmálaráðherra, Lenu Hallengren og Amöndu Lind, í morgun. Jafnframt hefur verið betur skilgreint hvernig skiptingin er varðandi fjöldatakmarkanir á viðburðum utandyra, sitjandi og standandi innanhúss.

Hallengren segir það mikið áhyggjuefni að nýjum smitum er farið að fjölga að nýju og áþreifanleg hætta á að þriðja bylgja sýkinga sé yfirvofandi. Frá því á föstudag hafa 59 látist af völdum Covid-19 í Svíþjóð en alls hefur farsóttin dregið 12.487 til dauða þar í landi. Alls hafa verið staðfest 617.869 smit í Svíþjóð, þar af 9.458 síðan á föstudag. 

Búið er að bólusetja 364.120 einstaklinga og af þeim hafa 141.778 fengið báðar bólusetningar. 

Breytingarnar á sóttvarnareglunum fóru í gegnum þingið með hraði í janúar og að öllum líkindum taka þær gildi 11. mars.

Má þar nefna heimild til að loka fleiri fyrirtækjum en áður var hægt. Það þýðir að nú sé hægt að loka fleiri fyrirtækjum, ekki bara verslunum og verslunarmiðstöðvum, því fyrri ráðstafanir eru jafnvel ekki nægjanlegar til þess að stöðva framgang veirusmita. sem ekki var hægt í eldri útgáfu laganna.

Samkvæmt þessu má loka verslunum, verslunarmiðstöðvum og vöruhúsum en með þeirri undantekningu að verslanir sem selja nauðsynjavöru verði áfram opnar.

Heimilt verður að loka þjónustu þar sem fjarlægð er ekki tryggð, svo sem hárgreiðslu- og nuddstofum auk líkamsræktarstöðva, sundlauga og íþróttamannvirkja. Einnig veitingastöðum og stöðum sem bjóða upp á einkasamkvæmi.

Yfirvöld hafa þegar nýtt sér þessa heimild til þess að takmarka þann fjölda sem má vera inni í verslunum og líkamsræktarstöðvum. Söfnum og galleríum er gert að fylgja sömu reglum og nú eru í gildi hvað varðar fjölda á líkamsræktarstöðvum og í verslunum. Lind segir að þessar nýju reglur verði væntanlega til þess að hægt verði að opna ríkislistasöfn að nýju sem eru lokuð um þessar mundir. Svo lengi sem fjöldatakmörkunum er fylgt.

Samkvæmt núgildandi reglum mega átta koma saman að hámarki í Svíþjóð og gildir það um alla opinbera viðburði, svo sem tónleika, íþróttaleiki og aðra keppni utandyra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert