Facebook lokar á „sannar fréttir“ herforingja

Frá mótmælum í Mjanmar um helgina. Skiltin eru á ensku …
Frá mótmælum í Mjanmar um helgina. Skiltin eru á ensku enda ætlað að höfða til alþjóðasamfélagsins, þar með þín lesandi góður. AFP

Facebook hefur lokað á síðu sem herforingjastjórnin í Mjanmar hélt úti á miðlinum undir yfirskriftinni „Sannar fréttir“. Var það gert vegna ásakana um að á síðunni væri hvatt til ofbeldis.

Herforingjar rændu völdum í landinu um mánaðamót og hefur Aung Suu Kyi, sem áður var leiðtogi landsins, verið í stofufangelsi síðan. Hörð mótmæli hafa verið í landinu síðustu daga og vikur og hefur herforingjastjórnin brugðist harkalega við. Fjöldi fólks hefur verið handtekinn og nokkrir verið drepnir. Þá hafa herforingjarnir takmarkað aðgang að netinu.

Á Facebook-síðunni, sem herforingjastjórnin hélt úti, hafði staðlausum fullyrðingum um kosningasvindl Aung San Suu Kyi verið haldið fram en herinn hefur notað það sem átyllu fyrir aðgerðir sínar og undirbýr nú sýndarréttarhöld gegn henni.

Facebook hefur á liðnum árum lokað á hundruð síðna sem tengdar eru hernum í landinu. Margar hafa síðurnar snúist um róhingja-múslima, sem herinn hóf ofsóknir á árið 2017 með þeim afleiðingum að 750.000 róhingjar urðu að flýja yfir landamærin til Bangladess. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst ofsóknunum sem þjóðarmorðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert