Konan sem skaut Mussolini

Violet Gibson var handtekin árið 1926.
Violet Gibson var handtekin árið 1926. Af vef ítalska innanríkisráðuneytisins

Fyrsta apríl 1926 steig írsk kona úr mannmergðinni í Rómarborg og skaut enn alræmdasta einræðisherra 20. aldarinnar. Kúlan straukst við nef Benito Mussolini, en ítalski leiðtoginn lifði af morðtilræðið. 

Á meðal fjölmargra hugrekkisverka einstaklinga gegn fasisma í Evrópu á 20. öld, hefur morðtilræði Violet Gibson aldrei fengið mikla umfjöllun. Af þeim fjórum einstaklingum sem reyndu að ráða Mussolini af lífi komst hún þó næst því að takast ætlunarverkið. Núna, nærri öld síðar, hafa gjörðir hennar fengið aukna athygli og stendur til að setja upp minnisvarða um hana í Dublin á Írlandi. 

Gibson fæddist inn í auðuga fjölskyldu árið 1876. Hún var dóttir aðalsmannsins Barons Ashbourne og ólst upp við miklar allsnægtir. Hún gekk út í breskt samfélag við hirð Viktoríu Bretlandsdrottningar og tók þátt í fínustu samkvæmum bresku aðalsstéttarinnar. Hún átti alla tíð við heilsufarsleg vandamál að stríða og árið 1925 reyndi hún að taka eigið líf. 

Morðtilræðið átti sér stað þremur árum eftir að Mussolini tók fyrst við völdum. Gibson skaut þremur skotum á Mussolini þar sem hann flutti ræðu, áður en stuðningsmenn Mussolini réðust á hana. Henni var bjargað af lögreglu sem skarst í leikinn og handtók hana. Eftir að hafa dvalið um tíma í fangelsi á Ítalíu var Gibson framseld til Englands. Hún dvaldi á St Andrews-geðsjúkrahúsinu í Northampton þar til hún lést árið 1956. Dagana eftir morðtilræðið skrifuðu breskir og írskir stjórnmálamenn til Mussolini og óskuðu honum góðrar heilsu. 

Í bókun sem borgarráð Dublin samþykkti nýlega og heimilar að minnisvarða um Gibson verði komið fyrir segir að markmiðið sé að vekja athygli almennings á hetjudáðum Gibson og skipa henni sess í sögu írskra kvenna og karla. „Það hentaði bæði breskum yfirvöldum og fjölskyldu hennar betur að hún væri „geðveik“ en pólitísk“ segir í bókuninni. 

Mannix Flynn, borgarfulltrúi Dublin sem lagði til bókunina, segir við BBC að Gibson hafi verið „af einhverri furðulegri ástæðu algjörlega hundsuð af írskum yfirvöldum, og vissulega breskum yfirvöldum“.

„Eins og flestir einstaklingar, sérstaklega konur, sem gera einstaka hluti, er þeim oft ýtt til hliðar. Ef þú horfir á fyrri eða seinni heimsstyrjöldina voru konur þarna við hlið mannanna. Af einhverri óskiljanlegri ástæðu varð Violet Gibson að eins konar niðurlægingu, fólk forðaðist hana og yfirvöld reyndu að fela hana og smána með því að segja að hún væri veik á geði,“ segir Flynn. mbl.is