Bæjarstjóri lét kveikja í heimili blaðamanns

Bæjarstjórinn fyrrverandi, Dragoljub Simonovic, var dæmdur sekur.
Bæjarstjórinn fyrrverandi, Dragoljub Simonovic, var dæmdur sekur. Wikipedia.org/Marina Lopičić

Dómstóll í Serbíu dæmdi fyrrum bæjarstjóra Grocka, sem staðsettur er rétt utan við Belgrad, í fjögurra ára og þriggja mánaða fangelsi fyrir að hafa fyrirskipað íkveikju í heimili blaðamanns sem var að rannsaka spillingu.

Bæjarstjórinn fyrrverandi, Dragoljub Simonovic, er félagi í serbneska framfaraflokknum SNS, sem er stærsti flokkurinn þar í landi. Simonovic var ósáttur með blaðamanninn Milan Jovanovic sem var að rannsaka spillingarmál tengd bæjarstjóranum.

Hann fékk því mann að nafni Aleksandar Marinkovic til að kveikja í – sem hann gerði með því að kasta molotov-kokteil í hús blaðamannsins og fjölskyldu hans. Marinkovic fékk jafn langan dóm og Simonovic.

Jovonavic og eiginkona hans voru heima þegar árásin átti sér stað en þau náðu að flýja út um glugga á húsinu. Í nýlegri skýrslu Evrópusambandsins um frelsi fjölmiðla kom fram að hótanir, ógnanir og ofbeldi í garð frétta- og blaðamanna væri stórt vandamál í Serbíu.

„Ég vona að dómurinn sé fyrirboði meira fjölmiðlafrelsis í Serbíu,“ sagði Jovanovic við AFP eftir að dómurinn gekk.

mbl.is