Beittir ofbeldi í faraldrinum

Mynd úr safni AFP af heilbrigðisstarfsmönnum.
Mynd úr safni AFP af heilbrigðisstarfsmönnum. AFP

Móðganir, barsmíðar, handtökur. Heilbrigðisstarfsmenn víða um heim hafa þurft að þola ofbeldi af ýmsum toga í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Á síðasta ári bárust 400 tilkynningar til heilbrigðissamtaka um slíkt ofbeldi.

Alls bárust 1.172 tilkynningar um ofbeldi í garð heilbrigðisstarfsmanna til Safeguarding Health in Conflict Coalition, í fyrra. Yfir þriðjungur þeirra tengist beint Covid-19. Meðal dæma sem samtökin nefna er árás á hjúkrunarfræðing í Mexíkó en hópur réðst á hana og sakaði um að dreifa veirunni. 

Í Dakar var grjóti kastað í þrjá starfsmenn af fólki sem neitaði að fólk sem hafði dáið af völdum Covid-19 yrði grafið í nágrenninu. Hrækt var á heilbrigðisstarfsmann í Birmingham og hann níddur af nágranna vegna starfa síns. 

Í 80% tilvika voru árásirnar gerðar af almennum borgurum en einnig opinberum aðilum. Til að mynda voru heilbrigðisstarfsmenn sem gagnrýndu viðbrögð við faraldrinum handteknir og sakaðir um upplýsingaóreiðu og að vera liðsmenn hryðjuverkasamtaka. 

Flestar árásir á heilbrigðisstarfsmenn eru aftur á móti á stríðshrjáðum svæðum. Svo sem sprengjuárásir við sjúkrahús í Jemen og rán á læknum í Nígeríu. 

mbl.is