Dregið úr hömlum í Þýskalandi

AFP

Stefnt er að því að aflétta að hluta takmörkunum í Þýskalandi í næstu viku en Angela Merkel kanslari lagði fram minnisblað þar að lútandi í dag.

Fólk af tveimur heimilum má koma saman svo lengi sem það eru ekki fleiri en fimm, frá mánudeginum 8. mars. Jafnframt má opna blóma- og bókabúðir að nýju og eins garðyrkjustöðvar. Hárgreiðslustofur fengu að opna í gær. 

Hins vegar verða flestar aðrar verslanir, veitingastaðir, afþreyingar- og menningarstarfsemi áfram lokuð sem og íþróttamiðstöðvar til 28. mars. Aðeins er um minnisblað að ræða en það verður rætt á fundi Merkel með forsætisráðherrum allra 16 sambandsríkjanna á morgun. 

Almenningur og fyrirtæki hafa þrýst á að samfélagið verði opnað að nýju enda flestir orðnir þreyttir á ástandinu. Eins eru fyrirtæki í miklum erfiðleikum með að halda sér á floti vegna lokana mánuðum saman. 

En helstu ástæðurnar fyrir því að hægt er að létta að hluta á takmörkunum eru fjölgun bólusetninga og skyndimótefnamælingar. 

Stefna Þýskalands fyrir komandi vikur er: bólusetningar, sýnatökur, smitrakningar og opnun að nýju, segir í minnisblaðinu. Stefnt er að því að skólar hefji starfsemi að nýju í apríl og er miðað við að allir, bæði nemendur og kennarar, fái boð um sýnatöku einu sinni í viku. 

Barir, veitingastaðir, líkamsræktarstöðvar og menningarmiðstöðvar hafa verið lokuð frá því í nóvember í Þýskalandi. 

mbl.is