Búrkubann samþykkt í Sviss

Stöðvum öfgaíslam, annars vegar, og pálmaolíuna hins vegar.
Stöðvum öfgaíslam, annars vegar, og pálmaolíuna hins vegar. AFP

Kjósendur í Sviss samþykktu naumlega bann við því að hylja andlit sitt alfarið á almannafæri, í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag. Rúmt 51% kjósenda greiddi atkvæði með tillögunni, sem naut stuðnings Svissneska þjóðarflokksins. Þá var meirihluti hlynntur tillögunni í 16 kantónum og tveimur hálfkantónum og var tillagan því samþykkt.

Þótt í tillögunni hafi ekki verið minnst sérstaklega á eina trú dylst engum að tillagan var lögð fram til höfuðs múslimskum konum sem hylja andlit sitt á almannafæri. Er enda gjarnan vísað til tillögunnar sem „búrkubannsins“.

Lögin gilda aðeins á almannafæri, svo sem á götum úti, í verslunum, veitingastöðum og almenningssamgöngum. Þá er í lagi að hylja hluta af andlitinu. Það er eins gott enda grímuskylda á almannafæri í Sviss eins og víða annars staðar. 

Ríkisstjórn Sviss, sem samanstendur af fulltrúum fjögurra flokka, lagðist gegn tillögunni og hvatti kjósendur til að fella hana. Bent var á að bannið hefði litla þýðingu en af 400.000 múslimskum konum í landinu er talið að ekki fleiri en 100 hylji andlit sitt að staðaldri.

Formælendur sögðu hins vegar að með lögunum yrði tvennt tryggt: glæpamenn ættu erfiðara með að hylja andlit sitt og kvenfrelsi ykist þar sem karlar gætu ekki neytt konur sínar til að bera búrku eins og siður er meðal sumra fylgjenda íslamstrúar.

Sökum grímuskyldu er Svisslendingum nú skylt að hylja neðri hluta …
Sökum grímuskyldu er Svisslendingum nú skylt að hylja neðri hluta andlitsins á almannafæri en stranglega bannað að hylja líka þann efri. AFP

Viðskiptasamningur við Indónesíu samþykktur

Kosið var um tvær aðrar tillögur um helgina. Viðskiptasamningur Sviss og Indónesíu var naumlega samþykktur. Um 51,7% kjósenda greiddu atkvæði með samningnum og hlaut hann meirihluta í 20 og hálfri kantónu.

Með samningnum falla nær allir tollar á svissneskar vörur niður í Indónesíu, fjórða fjölmennasta landi heims. Þá munu Svisslendingar fella niður tolla á indónesískar iðnvörur.

Í samningnum er sérstaklega kveðið á um að hver sá sem flytur inn indónesíska pálmaolíu þurfi að sýna fram á að hún uppfylli umhverfisstaðla og sé framleidd með nægilega sómasamlegum hætti. Indónesía er stærsti framleiðandi pálmaolíu í heiminum, en varan er umdeild bæði vegna umhverfisáhrifa og samfélagslegra. Höggva þarf niður mikið af skógi til að skapa landrými fyrir ræktunina og er hún talin eiga þátt í því að tegundir á borð við órangútana og súmatra-tígra eru í útrýmingarhættu.

Samningurinn var undirritaður árið 2018 og samþykktur á þingi árið 2019, en það voru umhverfissinnar sem komu honum í þjóðaratkvæðagreiðslu einmitt vegna vægis pálmaolíunnar.

Rafræn skilríki felld

Þriðja tillagan sneri að innleiðingu rafrænna skilríkja í landinu. Tillagan var kolfelld, en aðeins greiddu um 35% kjósenda atkvæði með henni og hlaut hún ekki meirihluta í neinni kantónu.

Það kann að koma spánskt fyrir sjónir að mál af þessum toga hafi reynst umdeilt. Helsta andstaðan við frumvarpið sneri þó ekki að rafrænum skilríkjum sem slíkum heldur þeirri ákvörðun að útgáfa skilríkjanna skyldi vera í höndum einkaaðila.

Til stóð að hópur sem nefnist Swiss Sign Group skyldi sjá um útgáfuna en hann samanstendur af bönkum og fjarskiptafyrirtækjum, ekki ósvipað Auðkenni sem rekur rafrænu skilríkin á Íslandi. Voru helstu rökin gegn frumvarpinu þau að viðkvæmar persónuupplýsingar og jafnnauðsynlegir innviðir ættu ekki að vera í höndum einkafyrirtækja heldur ríkisins. Við þetta er að bæta að til stendur að íslenska ríkið taki yfir útgáfu rafrænna skilríkja. 

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru snar þáttur í svissnesku lýðræði. Boðað er til þeirra fjórum sinnum á ári og þá greidd atkvæði um allar þær tillögur sem hlotið hafa minnst 100.000 undirskriftir kjósenda. Oftar en ekki eru tillögur runnar undan rifjum tiltekinna stjórnmálaflokka sem ná með því að koma málum á dagskrá sem ekki er meirihluti fyrir á þingi.

Auk þess að þurfa stuðning meirihluta kjósenda á landsvísu þarf tillaga að njóta meirihlutastuðnings í meirihluta kantónanna sem mynda svissneska ríkið. Alls eru 26 kantónur í Sviss – 20 kantónur með heilt atkvæði og sex svokallaðar hálfkantónur sem hafa hálft atkvæðisvægi. Því þarf stuðning 12 kantónuígilda af 23 til að tillaga sé samþykkt.

mbl.is