Bróðir forsetans í lífstíðarfangelsi

Bróðir forseta Hondúras, Juans Orlandos Hernandez, var á þriðjudag dæmdur í lífstíðarfangelsi í New York fyrir aðild að fíkniefnasmygli. 

Tony Hernandez, sem er 42 ára, var fundinn sekur í október 2019 fyrir aðild að samsæri um innflutning á kókaíni til Bandaríkjanna, vörslu á vélbyssum og að hafa borið ljúgvitni.

Dómarinn, P. Kevin Castel, sagði við uppkvaðningu dómsins yfir Hernandez, sem er fyrrverandi þingmaður í Hondúras, að lífstíðarfangelsi væri vel verðskuldaður dómur en þingmaðurinn fyrrverandi var fundinn sekur um innflutning á meira en 185 tonnum af kókaíni til Bandaríkjanna.

Hernandez forseti var aftur á móti á öðru máli og sagði dóminn hneyksli og fáránlegan. Sagði hann að það væri ótrúlegt að lygi dæmdra morðingja væri tekin trúanleg. 

Saksóknarar fóru fram á lífstíðardóm og að Tony Hernandez hefði ekki sýnt minnsta vott iðrunar á sama tíma og hann væri höfuðpaur í einu stærsta kókaínsmyglmáli heimsins. Verjendur höfðu aftur á móti krafist lágmarksrefsingar fyrir brot af þessu tagi eða 40 ára fangelsis.

Hernandez, sem sat á þingi 2014-2018, var handtekinn á flugvellinum í Miami í nóvember 2018. Fjölskylda hans í Hondúras hefur haldið fram sakleysi hans og að dómnum verði áfrýjað. Það var skrifstofa forseta Hondúras sem sendi yfirlýsingu fjölskyldunnar frá sér á þriðjudagskvöldið. 

Saksóknarar sögðu við réttarhöldin að forsetinn hefði átt hlut að máli þrátt fyrir að vera ekki ákærður. Að forsetinn hafi þegið milljónir bandaríkjadala í mútur frá eiturlyfjabarónum, þar á meðal frá „þeim stutta“, Joaquín Archi­valdo Guz­mán. Forsetinn hefur ítrekað hafnað ásökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert