Vill setja á stutt útgöngubann í Þýskalandi

Angela Merkel Þýskalandskanslari óttast bylgju nýrra smita sem gengur nú …
Angela Merkel Þýskalandskanslari óttast bylgju nýrra smita sem gengur nú yfir landið. AFP

Angela Merkel Þýskalandskanslari er hlynnt því að herða sóttvarnaaðgerðir í stuttan tíma til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu faraldursins þar í landi.

„Merkel styður ákall um stutt útgöngubann á landsvísu,“ sagði Ulrike Demmer, talsmaður Merkel.

Samkomutakmarkanir og útgöngubann hafa verið í gildi í Þýskalandi í einni eða annarri mynd síðan í nóvember en þrátt fyrir það hefur ekki tekist sem skyldi að fækka smitum. Þvert á móti hefur breska afbrigðið breiðst hratt út undanfarið og smitum fjölgað nokkuð.

Á fundi Merkel með ríkisstjórum allra 16 sambandsríkja í mars sammæltust öll um að innleiða strangari reglur, þar á meðal lokanir og útgöngubann, á svæðum þar sem smit voru fleiri en 100 á hverja 100 þúsund íbúa.

Stjórnskipan í Þýskalandi er þó þannig að ríkjunum er í sjálfsvald sett hvernig slíkum boðum og bönnum er háttað. Sum ríki hafa ekki staðið við samkomulagið um hertar aðgerðir og nokkur hafa jafnvel létt á takmörkunum.

Talsmaður Merkel sagði að þessi bútasaumur sóttvarnaráðstafana væri ekki til þess fallinn að auka öryggi og samstöðu um þessar mundir. „Heilbrigðiskerfið er undir gríðarlegu álagi,“ sagði hún og benti á að lausum gjörgæslurýmum hefði fækkað um 5% síðastliðinn sólarhring.

Tæplega 10 þúsund ný smit greindust í Þýskalandi síðasta sólarhringinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert