Þýskalandi skellt í lás yfir páskana

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, kynnti takmarkanir á samkomum á fundi …
Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, kynnti takmarkanir á samkomum á fundi með blaðamönnum í morgun. AFP

Þýsk yfirvöld hafa ákveðið að framlengja harðar sóttvarnaaðgerðir um þrjár vikur og verður nánast öllu skellt í lás yfir páskana. Er þetta gert vegna þriðju bylgju kórónuveirusmita í landinu.

Þetta var tilkynnt eftir langan og strangan fund kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, með leiðtogum sambandsríkjanna. Reglurnar gilda til 18. apríl en verða hertar til muna 1.-5. apríl. Þá verður flestum verslunum lokað og samkomur takmarkaðar til muna. 

Kirkjum verður lokað og allar trúarathafnir bannaðar nema rafrænt. Fjölskyldusamkomur eru bannaðar fyrir fleiri en fimm og þeir mega bara koma af tveimur heimilum. Öllum verslunum verður lokað fyrir utan að laugardaginn 3. apríl verður matvöruverslunum heimilt að vera með opið. 

Merkel segir að aðstæður séu mjög erfiðar í Þýskalandi um þessar mundir. Smitum fari fjölgandi og gjörgæsludeildir séu að fyllast að nýju.

Nýjum smitum fjölgar hratt í Evrópu og erfiðlega hefur gengið að bólusetja eins hratt og væntingar voru um þar sem tafir hafa orðið á afhendingu bóluefna. Síðasta sólarhringinn voru staðfest 7.485 ný smit í Þýskalandi og dauðsföllin voru 250 af völdum Covid-19.

Í nágrannaríkinu Póllandi er staðan enn verri og í Frakklandi einnig. Þar hefur 471 sjúklingur verið lagður inn á gjörgæslu síðasta sólarhringinn og ný smit voru tæplega 16 þúsund talsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina