Of mikil áhersla á Filippus?

Andlát Filippusar er helsta fréttaefni í Bretlandi þessa dagana. Sumum …
Andlát Filippusar er helsta fréttaefni í Bretlandi þessa dagana. Sumum þykir þó heldur vel í lagt. AFP

Skiptar skoðanir eru í Bretlandi um viðbrögð breska ríkisútvarpsins, BBC, við andláti Filippusar prins, eiginmanns Elísabetar drottningar. 

Filippus lést á föstudag 99 ára að aldri. Breska ríkisútvarpið aflýsti samstundis allri skipulagðri sjónvarpsdagskrá sinni og vinsælir þættir á borð við MasterChef féllu niður. Þess í stað var fjallað um andlátið og ævi og störf prinsins á öllum stöðvum. Þá breyttu allar útvarpsstöðvar BBC lagavali sínu og fékk engin popptónlist að heyrast.

Sumum Bretum þykja aðgerðir BBC viðeigandi virðingarvottur en öðrum þykir BBC hafa gengið of langt.

Ríkisútvarpinu hafa borist svo margar kvartanir vegna málsins að komið hefur verið upp sérstakri síðu til að senda inn kvartanir fyrir þá sem telja „of mikla sjónvarpsumfjöllun hafa verið um andlát hans hátignar Filippusar prins, hertoga af Edinborg“ eins og segir á síðunni sjálfri. Ekki hefur þó verið gefið upp hve margar kvartanir hafa borist.

Höfuðstöðvar BBC í Portland Place í Lundúnum.
Höfuðstöðvar BBC í Portland Place í Lundúnum. AFP

Simon McCoy, sem var um árabil fréttamaður á BBC en yfirgaf miðilinn fyrir skemmstu, er einn þeirra sem telja áhersluna of mikla. 

„BBC1 og BBC2 sýna sömu hlutina. Og væntanlega News Channel líka. Til hvers? Ég veit að þetta er risaatburður. En á almenningur ekki rétt á að velja hvað hann horfir á?“ spyr McCoy á Twitter.

Sem ríkisfjölmiðill er BBC í þeirri erfiðu stöðu að þurfa að sífellt að feta milliveginn milli ósamrýmanlegra sjónarmiða. Árið 2002, er móðir Elísabetar drottningar, Elísabet drottningarmóðir, lést, var BBC til að mynda gagnrýnt fyrir að sýna henni ekki tilhlýðilega virðingu sökum þess að fréttamaður sem flutti fréttirnar var ekki með svart bindi.

Útvarpsstjóri BBC hefur viðurkennt að staða miðilsins sé ólík öðrum miðlum og að ríkismiðillinn verði að þróast í samræmi við tíðarandann. „Okkar hlutverk er ólíkt miðlum eins og Netflix,“ sagði hann breskum þingmönnum í síðasta mánuði. „Ég stýri ekki hagnaðardrifnu fyrirtæki. Ég stýri stofnun með tilgang,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert