49 greindust með smit í sömu flugvél

AFP

Fastlega er gert ráð fyrir að Lyfjastofnun Evrópu (EMA) muni kveða upp úr um öryggi bóluefnis Janssen, dótturfélags Johnson & Johnson, við Covid-19 í dag. Hong Kong hefur bannað allt millilandaflug til Indlands vegna 49 smita um borð í flugi þaðan. 

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja hefur undanfarið rannsakað fjögur tilvik blóðtappa sem tilkynnt voru í kjölfar bólusetningar með bóluefninu Covid-19 Vaccine Janssen. Rannsóknin miðar að því að meta hvort orsakasamband er milli notkunar bóluefnisins og blóðtappamyndunar. Bandaríska lyfjastofnunin mun birta sína niðurstöðu í sambærilegri rannsókn á föstudag. 

EMA heldur blaðamannafund um niðurstöðuna síðar í dag en fjögur alvarleg tilvik blóðtappa þar sem fækkun blóðflagna er einnig til staðar, í kjölfar bólusetningar með bóluefninu COVID-19 Vaccine Janssen, voru til rannsóknar hjá stofnuninni. Eitt þessara tilvika kom upp í klínískri rannsókn, hin þrjú eftir að bólusetning hófst í Bandaríkjunum. Eitt tilvikanna leiddi til dauða.

EMA hefur sagt að tilvikin séu gríðarlega fá miðað við að á sama tíma hafi 4,5 milljónir einstaklinga verið bólusettar með Janssen-bóluefninu í heiminum. Helsti ráðgjafi stjórnvalda í Bandaríkjunum hvað varðar Covid-19, Anthony Fauci, er á sama máli. Hann sagði á sunnudag að hann teldi að byrjað yrði að bólusetja að nýju með bóluefninu fljótlega en jafnvel yrði um einhverjar takmarkanir að ræða. 

Ójöfnuður sagður harmleikur

Eitt af því sem rætt er um er ójöfnuður fólks þegar kemur að bólusetningum við Covid-19 þar sem ríkar þjóðir hafa farið langt fram úr þeim fátækari. Loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg er ein þeirra sem hafa vakið athygli á þessum ójöfnuði og segir hann harmleik. 

Fjöldabólusetningar eru sagðar lykillinn að því að heimsbyggðin upplifi eðlilegt líf og hjól efnahagslífsins snúist að nýju. Ekki síst ferðaþjónustan.

Neyðarráð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) segist vera á móti því að krafa sé gerð um að farþegar framvísi bólusetningarvottorði við ferðalög milli landa en ýmis lönd hafa gert kröfu um að slíku vottorði sé framvísað. Ráðið segir að slíkar kröfur muni auka enn á ójöfnuð og ýti undir ólíkt frelsi til ferðalaga vegna þess óréttlætis sem ríki þegar kemur að bólusetningum í heiminum. 

Á sama tíma berast fréttir af smitum sem berast með fólki sem hefur ferðast til útlanda, svo sem á Íslandi. Í Hong Kong reyndust að minnsta kosti 49 farþegar um borð í flugvél sem kom frá Indlandi smitaðir af Covid-19. Greint var frá þessu í dag en um var að ræða flug frá Indlandi 4. apríl. Bann hefur verið sett á allt millilandaflug til Indlands frá Hong Kong.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert