Vatíkanið opinberar fasteignasafn ríkisins

Meðal eigna Vatíkansins eru Sixtínska kapellan, Péturstorgið og Péturskirkjan en …
Meðal eigna Vatíkansins eru Sixtínska kapellan, Péturstorgið og Péturskirkjan en nú hefur Páfastóll opinberað eignir sínar utan Vatíkansins sjálfs. AFP

Vatíkanið opinberaði í dag fasteignasafnið sitt en smáríkið á yfir fimm þúsund fasteignir víðs vegar um Evrópu. Flestar eignirnar eru á Ítalíu eða 4.051 þeirra.

Gögnin voru opinberuð vegna málareksturs Vatíkansins gegn fyrrum ráðherra ríkisins sem festi kaup á flennistórri vöruskemmu í Lundúnum fyrir hönd ríkisins. Fjárfestingin reyndist glapræði og kostaði ríkissjóð Vatíkansins mikið fé.

Vilja uppræta langa sögu leyndarhyggju

Málaferlum þessum er ætlað að varpa ljósi á þessa meðferð fyrrum ráðherrans á almannafé og hvort mögulega hafi persónlegar hvatir ráðið för. Opinberun gagnanna er einnig skref stjórnar Vatíkansins í átt að gagnsæi en ríkið í heild sinni og kaþólska kirkjan sér í lagi hafa lengi verið þekkt fyrir mikla leyndarhyggju og dulúð.

Frans Páfi hefur í sinni valdatíð lagt áherslu á að breyta ímynd kirkjunnar hvað þetta varðar.

Frans Páfi.
Frans Páfi. AFP

Segir gagnsæi þjóna ríkinu betur

Fjármálaráðherra ríkisins, Juan Antonio Guerrero, segir þetta stórt skref í baráttunni við mútuþægni og leyndarhyggju: „Menningin hér hefur lengi einkennst af leyndarhyggju. Við höfum hins vegar lært það af reynslunni að gagnsæi verndar okkur mun betur en leyndarhyggja.“

Í gögnunum kom fram að 14% eigna Vatíkansins eru leigðar út á markaðsvirði en þá rennur ágóðinn í kirkjustarfið og góðgerðarmálefni. Meginþorri eignanna, hin 86%, eru hins vegar leigðar út á undirverði og þá til kardínála Vatíkansins og starfsmanna þess.

mbl.is