Þungaðar konur þiggi bólusetningu

Ný gögn sýna aukningu alvarlegra veikinda meðal barnshafandi kvenna sem …
Ný gögn sýna aukningu alvarlegra veikinda meðal barnshafandi kvenna sem liggja á sjúkrahúsi vegna veirunnar. AFP

Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa hvatt barnshafandi konur til að þiggja bóluefni við Covid-19, eftir að rannsókn þar í landi leiddi í ljós að Delta-afbrigðið virðist auka hættu á alvarlegum einkennum.

Jacqueline Dunkley, yfirljósmóðir Englands, hvatti á föstudag barnshafandi konur til þess að mæta í bólusetningu, þar sem ný gögn sýndu aukningu alvarlegra veikinda meðal barnshafandi kvenna sem lægju á sjúkrahúsi vegna veirunnar.

Hún skrifaði opið bréf til heimilislækna og ljósmæðra þar sem hún biður þau að hvetja barnshafandi konur til þess að mæta í bólusetningu.

Yfir 130.000 fengið Moderna eða Pfizer

Konunglegi háskólinn í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum hefur þá einnig gefið út að mælt sé með bólusetningum fyrir barnshafandi konur.

Heilbrigðisyfirvöld í Englandi hafa mælt með því að barnshafandi konur fái Moderna- eða Pfizer-bóluefni þar sem þau efni hafa verið gefin yfir 130.000 barnshafandi konum í Bandaríkjunum.

mbl.is