John Snorri lenti í vandræðum með reipið

Ali Sadpara og John Snorri.
Ali Sadpara og John Snorri.

Fjallgöngumaðurinn John Snorri Sigurjónsson, sem fannst látinn á K2 í síðasta mánuði, lenti í vandræðum með reipið sem hann hékk í en það hafði farið úr skorðum. Reipafesting á fjallinu hafði einnig brotnað.

Þetta kemur fram í frásögn úkraínska fjallgöngumannsins Valentyns Sypavins sem var leiðsögumaður hóps á fjallinu þegar hann fann lík göngufélaga Johns Snorra, Juans Pablos Mohrs, en RÚV greindi fyrst frá. 

Hingað til hefur ekki verið greint frá því hvað varð John Snorra og þeim sem fóru með honum á K2 að aldurtila.

Fram kemur í frásögn Sypavins að John Snorri hafi fundist samanhnipraður á fjallinu um 100 metrum fyrir ofan lík annars göngufélaga hans, Alis Sadpara. John Snorri var ekki með sólgleraugu og enginn hanski var á vinstri hendi hans.

Voru tvímælalaust á niðurleið

Sypavin staðfestir að John Snorri hafi verið á leið niður fjallið. Hann segir að John hafi komið að brotinni reipafestingu og að hann hafi hangið í línu sem var föst í lykkju. Annaðhvort hafi hann ekki séð nógu mikið vegna myrkurs eða þreytu. Til þess að losna úr línunni hefði hann þurft að klifra upp um þrjá metra án líflínu og nota tærnar á ísbroddunum sínum til að halda sér, sem hefði verið mjög erfitt.

Sypavin telur að John Snorri hafi ekki haft styrkinn til að komast úr þessum erfiðu aðstæðum. Hann hafi líklega verið orðinn örmagna.

Hann bætir við að Snorri og Sadpara hafi tvímælalaust verið á niðurleið. Enginn hafi fallið og ekkert dularfullt átt sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert