Hátt í tvö þúsund látin á Haítí

Samkvæmt opinberum tölum þá hafa að minnsta kosti 1.941 látið lífið þegar stór jarðskjálfti varð á Haítí á laugardag. Það eru fimm hundruð fleiri en í fyrstu var talið. Björgunarsveitum hefur tekist að finna 34 á lífi í rústum húsa en margra er enn saknað.

Skjálftinn um liðna helgi mældist 7,2 að stærð. Leitarstarf hefur gengið erfiðlega sökum mikillar úrkomu sem fylgir hitabeltisstorminum Grace sem fylgdi í kjölfar skjálftans. 

Hátt í 10.000 hafa slasast og eru sjúkrahús yfirfull og staðan þar mjög erfið. 

Að sögn Sameinuðu þjóðanna hafa um 500.000 börn takmarkað eða ekkert húsaskjól. Þau hafa sömuleiðis takmarkað eða ekkert aðgengi að mat og hreinu vatni. 

„Óteljandi fjölskyldur á Haítí, sem hafa misst allt sitt í skjálftanum, búa nú bókstaflega með fæturna í vatni sökum flóðanna,“ segir Bruno Maes, sem er fulltrúi Barnahjálpar SÞ (UNICEF) í landinu. 

Margir íbúar hafast nú við í bráðabirgðatjöldum sem hafa verið reist á fótboltavelli í borginni Les Cayes, sem er eitt af þeim svæðum sem urðu verst úti í hamförunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert