Milljarðamæringur dæmdur fyrir morð

Robert Durst.
Robert Durst. AFP

Bandaríski fasteignaerfinginn og auðkýfingurinn Robert Durst, sem HBO heimildaþættirnir The Jinx byggja á, hefur verið sakfelldur fyrir morðið á Susan Berman.

Durst myrti Berman, vinkonu sína, árið 2000 til þess að koma í veg fyrir að hún upplýsti lögreglu um hvarf eiginkonu Durst, sem hvarf árið 1982 og er talin af.

BBC greinir frá.

Susan Berman vann sem talsmaður Durst eftir að kona hans hvarf og var hún þá orðinn þekktur glæpasagnahöfundur. Durst réði Bermann til sín eftir að hann fékk réttarstöðu grunaðs í máli um hvarf konu sinnar.

Saksóknari í málinu sagði við þinghald þess að Durst væri narsissískur siðblindingi. Durst, sem er 78 ára gamall, mun að öllum líkindum eyða ævikvöldi sínu á bakvið lás og slá.

Sakaður um þrjú morð

Saksóknari heldur því sömuleiðis fram að Durst sé í raun sekur um morðið á tveimur í viðbót; eiginkonu sinni annars vegar og öldruðum nágranna sínum sinni hins vegar, sem komst að því hver hann var á meðan hann hélt sig í felum árið 2001.

Durst bar fyrir sig að morðið á nágranna sínum, Morris Black (lík hvers Durst bútaði niður), hafi verið sjálfsvörn.

Durst kemur úr einni ríkustu og valdamestu fjölskyldu sem fyrirfinnst í New York-borg. Douglas Durst bar vitni í máli bróður síns og sagði: „Hann myndi vilja drepa mig.“

mbl.is