Húsleit hafin hjá kærasta Petito

Lögregluyfirvöld í Florida leita hér á heimili Laundrie að einhverju …
Lögregluyfirvöld í Florida leita hér á heimili Laundrie að einhverju sem getur gefið til kynna hvar hann er niður kominn. AFP

Húsleit hófst í dag á heimili Brian Laundrie, kærasta hinnar 22 ára gömlu Gabrielle Petito. Í gær fannst lík í skógi nálægt tjaldsvæði í Wyoming í Bandaríkjunum sem lögregla tilkynnti á blaðamannafundi að búið væri að bera kennsl á sem Gabrielle Petito. Krufning hefur þó ekki farið fram.

Laundrie býr hjá foreldrum sínum en lögreglumenn fylgdu þeim út þegar leitin hófst og sæta þeir nú yfirheyrslu.

Efast um að Petito hafi skrifað skilaboðin

Laundrie kom einn heim úr ferðalagi sem hann og Petito höfðu lagt af stað í í upphafi sumars á húsbíl í eigu Petito. Hafði fjölskylda hennar þá ekkert heyrt frá henni síðan í ágúst.

Fram að því hafði Petito verið í stöðugum samskiptum við þau og deilt efni á samfélagsmiðlum reglulega.

Síðustu skilaboðin sem Petito sendi móður sinni voru þess efnis að það yrði ekkert símsamband í Yosemite, næsta áfangastað þeirra. Móðirin hefur lýst efasemdum um að Petito hafi verið sú sem skrifaði skilaboðin.

Þegar Laundrie kom heim neitaði hann að ræða við fjölskyldu Petito og vildi heldur ekki ræða við lögreglu.

Þegar ljóst var að hann lægi undir grun vegna hvarfs Petito, hvarf hann sjálfur sporlaust og ekkert hefur spurst til hans í viku.

Víkka út leitarsvæðið

Foreldrar Laundrie lýstu því að hann hafa farið með bakpoka og sagst ætla að eyða tíma á náttúruverndarsvæði í grenndinni.

Lögreglan hefur nú þegar kembt það svæði án árangurs og mun því víkka úr leitarsvæðið umtalsvert.

Lögregla hafði afskipti af unga parinu

Tólfta ágúst hafði lögregla haft afskipti af unga parinu, vegna gruns um ofbeldishegðun þeirra á milli. 

Tók lögreglan skýrslu af þeim báðum sem lýstu atvikinu sem smávægilegum ágreiningu og sögðust vera hamingjusöm og ástfangin en bara þreytt eftir langt ferðalag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert