Þarf að þvo föt kvenna í sex mánuði

Þvottur úti snúru. Mynd úr safni.
Þvottur úti snúru. Mynd úr safni. Ljósmynd/Getty Images

Indverskum manni sem er sakaður um tilraun til nauðgunar hefur verið veitt reynslulausn með því skilyrði að hann þvoi og straui föt allra kvennanna í heimabæ sínum næstu sex mánuðina.

Samkvæmt úrskurði dómstóls þarf Lalan Kyumar, 20 ára, að kaupa þvottaefni og fleiri hluti sem þörf er á til að sinna þvottinum fyrir í kringum 2.000 konur í bænum Majhor í ríkinu Bihar.

Kumar, sem vinnur við það að þvo föt, var handtekinn í apríl, meðal annars vegna gruns um tilraun til nauðgunar. Ekki hefur verið ákveðið hvenær réttarhöld yfir honum hefjast.

„Allar konurnar í þorpinu eru ánægðar með ákvörðun dómstólsins,” sagði Nasima Khatoon, formaður bæjarráðs.

Lögum í Indlandi vegna nauðgunar var breytt árið 2012 eftir hópnauðgun í borginni Nýju-Delí en fjöldi brota er enn mikill. Tilkynnt voru yfir 28 þúsund nauðganir á síðasta ári í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert