Laundrie fannst látinn

Frá blaðamannafundi lögreglunnar síðdegis í dag að staðartíma vestanhafs.
Frá blaðamannafundi lögreglunnar síðdegis í dag að staðartíma vestanhafs. AFP

Líkamsleifar sem fundust úti í náttúrunni í Flórída í gær hafa reynst vera af Brian Laundrie, fyrrverandi unnusta Gabby Petito, sem hann er grunaður um að hafa myrt.

Alríkislögreglan segir í yfirlýsingu að samanburður við gögn tannlækna um Laundrie hafi leitt þetta í ljós.

Laundrie, sem var 23 ára, hefur verið leitað síðan í september. Í þeim mánuði fannst Petito látin en parið hafði lagt í bílferðalag þvert yfir Bandaríkin.

Fjölskylda hennar auglýsti eftir henni 11. september og fannst lík hennar skömmu síðar. Sjálfur sneri Laundrie aftur til Flórída án hennar, áður en hann lét sig svo hverfa.

mbl.is