Snúin aftur í höllina eftir nótt á sjúkrahúsi

Drottningin, sem er 95 ára að aldri, sneri aftur af …
Drottningin, sem er 95 ára að aldri, sneri aftur af sjúkrahúsi í dag og er „í góðu skapi“, segir Buckingham-höllin í tilkynningu sinni. AFP

Elísabet Englandsdrottning er snúin aftur í Windsor-kastalann eftir að hafa gist eina nótt á sjúkrahúsi og fengið þar læknisskoðun á miðvikudagskvöld.

Drottningin, sem er 95 ára að aldri, sneri aftur af sjúkrahúsi í dag og er „í góðu skapi“, segir Buckingham-höllin í tilkynningu sinni.

Hún var sagð hafa verið vonsvikin eftir að hafa þurft að hætta við heimsókn sína til Norður-Írlands á miðvikudag en læknir hafði ráðlagt henni að hvíla sig í nokkra daga, eftir annasama dagskrá opinberra erinda.

Gistingin hafi verið af praktískum ástæðum

„Eftir að hafa fengið læknisráð um að hvíla sig í nokkra daga, fór drottningin á sjúkrahús seinnipart miðvikudags í nokkrar rannsóknir. Hún sneri aftur til Windsor-kastala um hádegisbil í dag og er enn í góðu yfirlæti,“ segir í tilkynningu hallarinnar.

Gistingin á sjúkrahúsinu var sögð hafa verið af praktískum ástæðum og að drottningin hafi verið mætt aftur við skrifborðið sitt síðdegis í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert