1,5 milljónir látist í Evrópu af völdum Covid

Ástandið hefur verið einna verst í Rússlandi.
Ástandið hefur verið einna verst í Rússlandi. AFP

Yfir ein og hálf milljón manns hafa látist af völdum Covid-19 frá upphafi kórónuveirufaraldursins að því fram kemur í nýrri samantekt AFP-fréttaveitunnar. 

Nokkur Evrópuríki hafa brugðið á það ráð að herða aðgerðir á nýjan leik eftir að smitum tók aftur að fjölga.

Að sögn AFP var tala látinna í Evrópu 1.500.105 kl. 10 að íslenskum tíma í gær, en yfirlitið nær til allra 52 ríkja Evrópu. Fyrsta andlátið af völdum Covid var skráð í febrúar 2020. 

Tölfræðin byggir á daglegum skýrslum sem heilbrigðisyfirvöld í ríkjunum birta daglega. Ekki eru teknar með endurskoðaðar tölur frá öðrum stofnunum sem taka einnig saman tölur, en skv. þeim eru tölur yfir dauðsföll mun hærri. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) telur að heildarfjöldi látinna af völdum faraldursins gæti verið tvisvar til þrisvar sinnum hærri heldur en opinberar tölur gefa til kynna, en það tengist dauðsföllum umfram meðtal sem tengist annað hvort beint eða óbeint Covid-19. 

Samkvæmt opinberum tölum er staðan verst í Rússlandi, en þar eru skráð 269.057 dauðsföll. Rússneska hagstofan Rosstat telur aftur á móti að talan sé töluvert hærri eða tæplega 450.000 í lok september, en Rosstat er með víðari skilgreiningu á dauðsföllum af völdum Covid-19. 

Tæplega 30% daglegra dauðsfalla greinast í Rússlandi að auki, en þar látast að meðaltali 1.246 einstaklingar daglega. 

Í Bretlandi hafa 144.286 látist af völdum veirunnar og 133.415 á Ítalíu, sem eru þær þjóðir sem koma næstar á eftir Rússum. 

mbl.is