Kjósa um hertar aðgerðir í Sviss

Mótmæli gegn hertum aðgerðum í Lausanne, Sviss, fyrr í haust.
Mótmæli gegn hertum aðgerðum í Lausanne, Sviss, fyrr í haust. AFP

Svisslendingar kjósa í dag um nýjar takmarkanir ríkisstjórnarinnar í baráttunni við kórónuveiruna í ljósi fjölgunar kórónuveirutilfella þar í landi síðasta mánuðinn.

CNN greinir frá.

Kosið verður um breytingar á fyrri Covid-lögum en þau komu til framkvæmda í mars síðastliðnum. Samkvæmt skjali frá ríkisstjórn Sviss breytti þingið lögunum til þess að „veita frekari fjárhagslega aðstoð til þeirra sem ekki var hægt að styðja áður eða ekki hægt að styðja nægilega mikið,“ og til þess að „bæta rakningu smita og auka skimunargetu."

Auk þess hefur þingið lagt lagalegan grundvöll fyrir innleiðingu svokallaðs Covid-vottorðs eða heilsupassa til að auðvelda ferðalög til útlanda og svo hægt sé að halda tiltekna viðburði.

Andstæðingar telja að núverandi lög séu fullnægjandi til að vernda Svisslendinga gegn Covid-19. Þeir halda því einnig fram að Covid-lögin mismuni óbólusettum og myndu þar af leiðandi leiða til fordæmalauss klofnings í landinu.

Þrátt fyrir að flestar svissneskar stjórnmálahreyfingar styðji enn lögin hefur UDC, popúlískur og hægrisinnaður flokkur, lýst yfir stuðningi við „Nei“-herferðina í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Fleiri en 5.000 tilfelli greinast daglega

Mikill fjöldi smita hefur greinst í nýjustu bylgju faraldursins í Sviss. Fleiri en 5.000 tilfelli hafa greinst daglega undanfarna viku sem er ansi nálægt metfjölda smita síðasta árs.

Þetta er í annað sinn á innan við hálfu ári sem Svisslendingar greiða atkvæði um aðgerðir. Í júní studdu þeir Covid-lögin 2020 með 60,2% atkvæða í fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu.

Greidd verða atkvæði um þrjú lög. Auk Covid-laganna verður kosið um lög sem snúa að öflugri hjúkrum og lögum um hvernig alríkisdómarar eru valdir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert