Dagleg smit stukku úr 1.275 í 8.561 með Ómíkron

AFP

Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar hefur valdið mikilli smitaukningu í Suður-Afríku sem þarlendir vísindamenn segja tilefni til að hafa áhyggjur af. Afbrigðið hefur snögglega orðið ráðandi í smitum í Suður-Afríku. 

Afbrigðið greinist nú í sífellt fleiri löndum og greindist það á Íslandi í gær. 

Michelle Groome, vísindamaður hjá Smitsjúkdómastofnun Suður Afríku, sagði í samtali við Guardian að veldisvöxtur hefði verið í kórónuveirusmitum síðastliðnar tvær vikur. Nú greinast þar þúsundir smita á dag en fyrir um tveimur vikum voru dagleg smit einungis 300. 

Í gær greindust 8.561 kórónuveirusmit í Suður-Afríku en viku áður voru þau 1.275. 

„Þessi þróun veldur okkur áhyggjum,“ sagði Groome. 

Um 74% smitanna sem greinst hafa síðastliðnar tvær vikur hafa verið af Ómíkron-afbrigði veirunnar. 

Enn er óljóst hvort þau bóluefni sem nú eru í umferð bjóði upp á góða vernd gegn afbrigðinu en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er með það til skoðunar og er upplýsinga um málið að vænta á næstu dögum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert