Smitum meðal barna fjölgað verulega

Fjöldi kórónuveirusmita í Suður-Afríku hefur fimmfaldast síðan hið nýja Ómíkron-afbrigði …
Fjöldi kórónuveirusmita í Suður-Afríku hefur fimmfaldast síðan hið nýja Ómíkron-afbrigði veirunnar var uppgötvað fyrir viku síðan. AFP

Mikil aukning hefur orðið á spítalainnlögnum barna í Suður-Afríku eftir að Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar tók að breiðast út um landið. Of snemmt er þó að segja hversu viðkvæm börn eru fyrir hinu nýja afbrigði, að því er suður-afrískir læknar greina frá.

Vísbendingar um að Ómíkron sé afar smitandi

Frá því Ómíkron-afbrigðið var fyrst uppgötvað af vísindamönnum í Suður-Afríku hefur kórónuveiran breiðst hraðar út í landinu en nokkru sinni áður í faraldrinum.

Fyrstu smit komu upp á meðal háskólanema í landinu sem varð til þess að veiran smitaðist hratt á meðal ungs fólks og síðar til eldri borgara.

Samkvæmt vísindamönnum og heilbrigðisyfirvöldum hefur sjúkrahúsinnlögnum barna fjölgað verulega, sérstaklega börnum undir fimm ára aldri en ekki síður barna á aldrinum 10-14 ára.

„Það hefur orðið töluverð aukning í öllum aldurshópum, sérstaklega hjá börnum yngri en fimm ára,“ segir Wassila Jassat, talsmaður sóttvarnarstofnunar Suður-Afríku (NICD), á blaðamannafundi, og vísar þar til sjúkrahúsinnlagna.

„Tíðni sjúkrahúsinnlagna hjá 60 ára og eldri er hæst en þar á eftir koma börn undir fimm ára,“ bætir hún við.

Börn yngri en 12 ára hafa enn ekki verið bólusett í Suður-Afríku og gæti það útskýrt þá stöðu sem nú er uppi í landinu, að sögn vísindamanna.

Michelle Groome, yfirmaður lýðheilsusviðs NICD, segir veiruna breiðast hraðar út nú en nokkurn tímann áður í faraldrinum, sér í lagi í Guateng héraðinu þar sem Jóhannesarborg og höfuðborgin Pretoría eru staðsettar.

„Bráðabirgðagögn benda til þess að Ómíkron-afbrigðið sé afar smitandi og að það komist mögulega framhjá ónæmisvörnum,“ segir hún.

Þrisvar líklegra til að valda endursýkingum

Ómíkron-afbrigðið er þrisvar sinnum líklegra til að valda endursýkingum heldur en Delta- eða Beta-afbrigði veirunnar, að því er suður-afrískir vísindamenn greindu frá á fimmtudag.

Þrátt fyrir að einkenni nýja afbrigðisins séu væg enn sem komið er má búast við því að fólk veikist alvarlega á næstu tveimur vikum, að sögn Groome.

11.535 ný tilfelli greindust í landinu í gær, flest í Gauteng-héraðinu.

Það eru um fimm sinnum fleiri tilvik en tilkynnt voru fyrir viku síðan, þegar Suður-afrískir vísindamenn gerðu heiminum viðvart um hið nýja Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert