Sex létust í eldsvoða á dvalarheimili

Eldsvoðinn varð í úthverfi Valencia á Spáni, merktu með rauðu …
Eldsvoðinn varð í úthverfi Valencia á Spáni, merktu með rauðu á kortinu. Kort/Google

Sex eldri borgarar, á aldrinum 67-95 ára, létust og tveir eru alvarlega slasaðir eftir að eldur kom upp í dvalarheimili í úthverfi spænsku borgarinnar Valencia seint í gærkvöldi.

Kallað var eftir aðstoð slökkviliðs og sjúkraflutningamanna á tólfta tímanum í gærkvöldi og tókst að bjarga 71 úr brennandi húsinu.

Karlar, 67 ára, 79 ára og 85 ára og konur, 78 ára, 89 ára og 95 ára létust í eldsvoðanum.

Eldurinn var mestur í einni álmu dvalarheimilisins þegar slökkvilið kom á vettvang. Álman er talin nánast ónýt og óvíst hvort eða hvenær íbúar geti flutt þangað aftur inn.

Fyrst var talið að kviknað hefði í út frá rafmagni en viðbragðsaðilar segja of snemmt að segja til um slíkt.

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, hefur sent fjölskyldum þeirra sem létust samúðarkveðjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert