Tongverskur Íslandsvinur vill safna milljón dölum

Pita Taufatofua hefur vakið athygli þrenna Ólympíuleika í röð fyrir …
Pita Taufatofua hefur vakið athygli þrenna Ólympíuleika í röð fyrir að koma fram sem fánaberi Tongó olíuborinn í skýlu. AFP

Tongverski Íslandsvinurinn og ólympíufarinn Pita Taufatofua hefur sett af stað söfnun fyrir hjálparstarf til að glíma við afleiðingar gríðarstórs sprengigoss í Kyrrahafinu sem olli mikilli eyðileggingu í Tonga-eyjaklasanum. 

Hann greinir frá þessu í viðtali við BBC en þar kemur einnig fram að nú þegar hafi tekist að safna um helmingnum af yfirlýstu markmiði söfnunarinnar sem eru milljón ástralskir dalir.

Ekkert heyrt frá föður sínum

Taufatofua segist ekki ennþá heyrt nokkuð frá föður sínum sem sé búsettur í Tonga en fjarskiptasendar eyjunnar liggja í lamasessi. 

Keppti í skíðagöngu á Ísafirði

Taufatofua hefur keppt á þrennum Ólympíuleikum ýmist í taekwondo, kayak-róðri eða á skíðum en hann tryggði sér keppnisrétt á vetrarólympíuleikunum 2018, sem fóru fram í Suður-Kóreu, á Ísafirði þegar hann keppti í 10 kílómetra skíðagöngu.

„Ég vissi ekkert um snjó. Ég hafði enga hugmynd um að snjórinn væri mismunandi, blautur, þurr, kaldur, heitur og að það þyrfti að nota sérstök skíði fyrir hverja tegund. Ég átti bara eitt par af skíðum og ætlaði að tryggja mér keppnisrétt á Ólympíuleikum á innan við ári,“ sagði Pita í samtali við AFP-fréttaveituna þegar hann tryggði sér keppnisréttinn. 

Taufatofua er fæddur og uppalinn í Brisbane í Ástralíu en á ættir að rekja til Tonga. Hann  hóf skíðaferilinn með því að binda planka á fæturna og hlaupa þannig búinn í sandinum á ströndinni við Brisbane.

Pita Taufatofua virtist njóta sín vel á Íslandi.
Pita Taufatofua virtist njóta sín vel á Íslandi. Af Instagram - birt með leyfi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert