Biden væntir þess að Rússar muni ráðast í Úkraínu

Biden hélt fáséðan blaðamannafund í Hvíta húsinu í dag.
Biden hélt fáséðan blaðamannafund í Hvíta húsinu í dag. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist gera ráð fyrir því að Vladimír Pútín myndi senda Rússlandsher til innrásar Úkraínu á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag en sagði það síðan geta farið eftir því hvorum megin hann rísi úr rekkju. 

„Held ég að hann muni ögra vestrænum þjóðum, eins og Bandaríkjunum og NATO, til hins ýtrasta? Já ég held það,“ sagði Biden meðal annars á fundinum og bætti við að afleiðingar slíkra ögrana muni koma Pútín á óvart.

„Hann verður að gera eitthvað“

Þá spurði blaðamaður Biden hvort hann vænti þess að Pútín muni láta verða af því að ráðast inn i Úkraínu eftir að hafa sent mikinn fjölda hermanna á landamærin. Svaraði Biden því játandi:

„Ég held að hann muni færa sig inn. Hann verður að gera eitthvað.“

Hann vildi ekki fara út í það nákvæmlega með hvaða hætti vestræn ríki myndu bregðast við ef Pútín léti til skarar skríða. Hann hefur þegar lofað yfirgripsmiklum viðskiptahöftum en er óviss um að það muni nægja til þess að letja Pútín frá innrás. 

„Ég ætti líklega að láta staðar numið núna. En ég held að þær [aðgerðirnar] muni valda honum þó nokkrum skaða.“

Biden varð síðar á fundinum myrkur í máli og virtist óviss um hvort Pútín myndi fyrirskipa innrás: „Ætli það velti ekki að einhverju leyti á því hvorum megin [Pútín] fer fram úr rúminu þann morguninn.“ 

Umfjöllun New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert