Árásin ógni enn bandarísku lýðræði

Biden sakaði hann forvera sinn Donald Trump um að hafa …
Biden sakaði hann forvera sinn Donald Trump um að hafa dreift lygavefnum sem leiddi til árásarinnar á þinghúsið. AFP

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti hélt ávarp í húsa­kynn­um banda­ríska þings­ins klukk­an 14 í dag ásamt Kamölu Harris vara­for­seta, í til­efni þess að ár er liðið frá árás stuðnings­manna Don­alds Trump, fyrr­ver­andi for­seta, á þing­húsið.

Biden sagði í ávarpi sínu að árásin væri stöðug ógn við lýðræði í Bandaríkjunum. Þá sakaði hann forvera sinn Donald Trump um að hafa dreift „lygavef“ sem aftur hafi leitt til árásarinnar á þinghúsið.

Rannsakendur málsins hafa hingað til handtekið 725 grunaða í tengslum við óeirðirnar.

Kamala Harris, varaforseti, var með ávarp á eftir Biden.
Kamala Harris, varaforseti, var með ávarp á eftir Biden. AFP

Sakar Biden um rangar fullyrðingar

„Þeir sem réðust inn í þinghúsið og þeir sem komu að þessu atviki héldu rýtingi að hálsi Bandaríkjanna og bandarísks lýðræðis,“ sagði Biden í Statuary Hall, þeim hluta þinghússins þar sem árásarmennirnir brutust inn.

„Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna hefur búið til og dreift lygavef um kosningarnar 2020. Marið egóið hans skiptir hann meira máli en lýðræði okkar eða stjórnarskrá,“ bætti hann við.

Skömmu eftir ávarp Bidens sendi Donald Trump frá sér yfirlýsingu þar sem hann sakaði Biden um „mistök og ítrekaðar rangar fullyrðingar um kosningarnar“.

mbl.is