„Barn lést úr vatnsskorti árið 2022“

Sundursprengdar borgir í Úkraínu og 300 þúsund manns innilokaðir í …
Sundursprengdar borgir í Úkraínu og 300 þúsund manns innilokaðir í Mariupol. Myndin var tekin í gær í borginni Karkív. AFP

Utanríkisráðherra Úkraínu, Dmítró Kúleba, setti á Twitter í dag ákall um hjálp til umheimsins, þar sem kom fram að Rússar héldu 300 þúsund almennum borgurum föngnum í úkraínsku borginni Mariupol.

„Barn lést úr vatnsskorti í gær! Stríðsglæpir eru hluti af hernaðaráætlun Rússa. Ég bið lönd heimsins um að krefja Rússa um að sleppa fólkinu lausu!“

Ráðherrann segir Rússa virða vopnahlé að vettugi og að þeir séu núna að skjóta á flóttaleiðina frá Zaporizhzhia til Mariupol og að þrýstingurinn á þá verði að aukast. Átta vörubílar og 30 rútur eru á leiðinni með sjúkra- og neyðarvistir til borgarinnar og með það markmið að flytja almenning frá borginni. 

Alein, örþreytt og þyrst 

Ekki er vitað hvað litla stúlkan sem lést úr vatnsskorti, hin sex ára Tanya, hafði verið lengi undir rústunum, en móðir hennar fannst einnig látin á staðnum. „Síðustu mínúturnar í lífi hennar var hún alein, örþreytt, hrædd og hræðilega þyrst. Þetta er bara ein af sögum fólksins hérna í Mariupol sem hafa búið vð loftárásirnar núna í 8 daga," sagði borgarstjórinn Vadym Boychenko á samskiptamiðlinum Telegram í dag. 

Forseti Úkraínu, Volodímír Selenskí, talaði um Mariupol í ræðu í dag þar sem hann sagði Mariupol umkringda og svelta af öllum nauðsynjum. „Í fyrsta skipti í áratugi, jafnvel ekki síðan frá innrás nasista hefur barn dáið af vatnsskorti. Heyrið í mér, kæru félagar! Barn dó úr vatnsskorti árið 2022!“ 

Samið hafði verið um vopnahlé í borginni á laugardag, þar sem borgin hefur verið án vatns, rafmagns og hreinlætisaðstöðu í rúma viku. Fjöldi fólks er innilokað í borginni sem hefur verið undir stöðugum skotárásum Rússa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert