Hvað lá að baki árásinni?

Sænski lögreglustjórinn í Malmö, Petra Stenkula og fræðslustjóri framhaldsskólastigs, Annelie …
Sænski lögreglustjórinn í Malmö, Petra Stenkula og fræðslustjóri framhaldsskólastigs, Annelie Schwartz, á blaðamannafundi í dag í Malmö Latin framhaldsskólanum. AFP/Johan Nilsson

Lögreglan í Svíþjóð reynir nú að skilja af hverju átján ára nemandi myrti tvo framhaldsskólakennara í gær, í árás sem hefur valdið hryllingi í landinu. Heldur rannsóknin áfram í dag.

Fórnarlömbin, sem voru bæði konur á sextugsaldri, voru kennarar í framhaldsskólanum Malmö Latin.

Nafn hins grunaða ekki gefið upp

Nafn hins grunaða hefur ekki verið gefið upp. Hann er talinn hafa verið vopnaður hníf og exi, en lögreglan hefur ekki staðfest þær upplýsingar.

Petra Stenkula lögreglustjóri sagði að lögreglan hefði náð í „fjölda vopna á vettvangi, sem væru ekki skotvopn“.

Verið er að kanna hvort hinn grunaði hefði ákveðið morð á fórnarlömbunum, eða hvort hann hefði ráðist á þær af tilviljun og hugsanlega ætlað að myrða fleiri.

„Við vitum ekki enn hvort hann hafði einhver tengsl við fórnarlömbin,“ sagði lögreglustjórinn við blaðamenn í dag og bætti við að sá grunaði hefði hreina sakaskrá, en lögreglan væri að rannsaka bakgrunn hans, heimili hans í Trelleborg og hvað hann var að gera dagana fyrir árásina.

Handtekinn á 3. hæð

Nemandinn sem er grunaður um ódæðin var handtekinn á 3. hæð skólabyggingarinnar aðeins tíu mínútum eftir að lögreglu hafði verið gert viðvart um morðin. Hann veitti enga mótstöðu í handtökunni og fórnarlömbin lágu á gólfinu rétt hjá. Farið var með báðar konurnar á spítala en þær létust um kvöldið.

Samkvæmt umfjöllun Aftonbladet hringdi árásarmaðurinn í neyðarlínuna, sagði hvar hann var og að hann hefði lagt frá sér vopnin og gekkst við morðunum.

Búið er að mynda stuðningshóp fyrir kennara og nemendur í skólanum. „Allir eru í áfalli. Þetta er svo hræðilegt,“ var haft eftir kennara í skólanum sem vildi ekki láta nafn síns getið í samtali við AFP-fréttaveituna.

Árásir af þessu tagi fátíðar í Svíþjóð

Árásir í skólum eru fátíðar í Svíþjóð, þar sem helstu ofbeldisglæpirnir tengjast undirheimum og sprengingum sem valda mannfalli. En nokkur alvarleg atvik hafa komið upp í skólum á síðustu mánuðum. Síðastliðinn janúar var 16 ára nemandi handtekinn eftir að hafa sært annan nemanda og kennara með hníf í smábænum Kristianstad.

Svipuð árás var gerð árið 2021 í Eslov sem er í 50 km fjarlægð frá Kristianstad þar sem nemandi réðst á 45 ára starfsmenn skólans. Engin tengsl virðast þó vera milli þessara atvika og árásarinnar í Malmö.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert