Skaut ungbarn með byssu föður síns

Lögreglan í Bandaríkjunum.
Lögreglan í Bandaríkjunum. mbl.is/Hjörtur

Átta ára drengur skaut eins árs stúlku til bana og særði tveggja ára systur hennar þegar hann lék sér með byssu föður síns í Flórída-ríki í Bandaríkjunum síðustu helgi, að sögn lögreglu.

Faðirinn hefur verið handtekinn og meðal annars ákærður fyrir ólöglega vörslu skotvopna og fyrir að hafa leynt sönnunargögnum, að sögn Chip Simmons, lögreglustjóra á svæðinu.

Harmleikurinn átti sér stað á móteli þar sem faðirinn, sem vegna sakaferils mátti ekki eiga skotvopn, hitti kærustu sína.

Hann hafði komið með son sinn og kærastan hafði með sér tveggja ára tvíbura sína og eins árs dóttur.

Skildi vopnið eftir í skáp

Á einum tímapunkti fór maðurinn út og skildi vopn sitt eftir í skápnum. Sonurinn vissi hvar byssan var falin og byrjaði að leika sér með hana þegar móðir stúlknanna var sofandi.

„Hann dregur byssuna úr hulstrinu, byrjar að leika sér með hana og skýtur skoti í ársgamla ungbarnið og drepur á endanum eins árs barnið. Þá fer kúlan í annan tvíburann sem er slasaður en búist er við að hann nái sér,“ sagði lögreglustjórinn.

Þegar faðirinn kom til baka tók hann byssuna og óþekkt efni, sem gæti hafa verið fíkniefni, út úr herberginu áður en lögreglan kom.

Hundruð barna með aðgengi að byssum

Dauði stúlkunnar er einn af fjölmörgum sem hefur átt sér stað í sambærilegum aðstæðum í Bandaríkjunum.

„Á hverju ári fá hundruð barna í Bandaríkjunum aðgang að hlöðnum byssum í skápum og náttborðsskúffum, í bakpokum og veskjum, eða þá að þau hafa bara verið skilin eftir,“ segir í nýlegri skýrslu Everytown For Gun Safety.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert