Bretar kvíða gasleysi

Raflínur frá Keadby-orkuveri SSE nærri Scunthorpe á Norður-Englandi. Bretar eru …
Raflínur frá Keadby-orkuveri SSE nærri Scunthorpe á Norður-Englandi. Bretar eru sagðir mega búa sig undir napran vetur. AFP/Lindsey Parnaby

Breska gas- og raforkustofnunin Ofgem, Office of Gas and Electricity Markets, segir neyðarástand blasa við í landinu er líða tekur að veturnóttum. Vegna viðsjánna milli Rússlands og Evrópu megi búast við hreinni gasþurrð.

Hefur Ofgem ritað raforkurisanum og fjarskiptafyrirtækinu SSE í Perth í Skotlandi bréf þar sem áhyggjunum er lýst en SSE rekur fjögur gasdrifin raforkuver í Bretlandi. Spáir Ofgem því þar að SSE bíði himinhár aukakostnaður standi það ekki undir þeim loforðum er gefin hafa verið um orkuframleiðslu.

„Vegna stríðsins í Úkraínu og gasskorts í Evrópu er umtalsverð hætta á alvarlegum gasskorti veturinn 2022 til '23 um gervallt Stóra-Bretland. Afleiðing þessa gæti orðið hreint neyðarástand.“

44 milljarðar á dag

Viðrar ritari Ofgem þar áhyggjur sínar af því að komi til framangreinds neyðarástands muni þurfa að skammta gas og þá kreppi skórinn óneitanlega fyrst hjá stórnotendum á borð við orkuver SSE. Gerist þetta leggist framangreindur aukakostnaður á framleiðendurna, svokallaðar „imbalance charges“ eða ójöfnuðarálag.

Í því felst skaðabótagreiðsla þegar framleiðendur standa ekki við gerða samninga um orkusölu sem leiða til þess að ríkisorkustofnunin National Grid neyðist til að útvega raforku annars staðar frá til að standa undir eftirspurn.

Metur SSE stöðuna þannig að meðalstórt raforkuver gæti reiknað með aukakostnaði sem nemur 276 milljónum punda dag hvern, en sú upphæð er jafnvirði 44 milljarða íslenskra króna, takist því ekki að standa undir umsaminni raforkusölu.

BBC

Bloomberg

Gazette & Herald

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert