Enn er málningu skvett á listaverk

Verið að reyna að ná málningunni af styttunni Hesturinn og …
Verið að reyna að ná málningunni af styttunni Hesturinn og knapinn eftir bandaríska listamanninn Charles Ray. Loftlagsaktívistar skvettu málningunni á styttuna í dag og kröfðust harðra aðgerða í loftlagsmálum. AFP/Alain Jocard

Hópur loftlagsaðgerðarsinna skvetti appelsínugulri málningu yfir útistyttu eftir bandaríska listamanninn Charles Ray í miðborg Parísar. Þetta er enn eitt spellvirkið þar sem málningu, kartöflumús eða öðru er kastað á heimsfræg listaverk til þess að beina athygli fólks að loftlagsmálum.

Styttan Hesturinn og knapinn stendur fyrir framan nútímalistasafnið Bourse de Commerce þar sem safn hátískufatnaðar eftir franska milljarðamæringinn Francois Pinault er meðal annars til húsa.

Franski menningarmálaráðherrann Rima Abdul-Malak talar við starfsmann sem var að …
Franski menningarmálaráðherrann Rima Abdul-Malak talar við starfsmann sem var að hreinsa málninguna af styttunni í dag. AFP/Alan Jocard

Samtökin Derniere Renovation sem lauslega mætti þýða sem Síðasti séns lýstu ábyrgð á verknaðinum á hendur sér, en á vefsíðu samtakanna var mynd af tveimur meðlimum sem héldust í hendur og krupu fyrir framan styttuna.

Aðgerðarsinnarnir höfðu einnig sett hvítan bol á knapa styttunnar þar sem á stóð: „Við eigum 858 daga eftir“ sem vísar til rannsóknar að ef árið 2025 hafi losun gróðurhúsaloftegunda ekki náð hámarki og þróuninni snúið við þá muni jörðin ekki verða lífvænleg í framtíðinni.

„Loftlags-spjöll“ hafa færst í aukana, sagði menningarráðherrann Rima Abdel Malak á Twitter í dag.

Aðgerðasinnanir hafa nú beint spjótum sínum að listaverki Andy Warhol í Mílanó, Vincent van Gogh í Róm og Vermeer í Haag og Van Gogh aftur í London.

Aðgerðirnar hafa ekki vakið mikla ánægju þótt óneitanlega hafi verið tekið eftir þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert