Læsa starfsfólk úti fram í næstu viku

Elon Musk, eigandi Twitter.
Elon Musk, eigandi Twitter. AFP/Jim Watson

Stjórnendur á Twittter tilkynntu í morgun að byggingum fyrirtækisins yrði lokað tímabundið og aðgangskort óvirkjuð á meðan. 

Lokunin tók gildi í sömu andrá og tölvupóstur með tilkynningunni var sendur á starfsfólk. BBC greinir frá. 

Í tölvupóstinum segir að skrifstofurnar yrðu opnaðar að nýju á mánudaginn. Ekki er gefin upp ástæða fyrir þessari skyndilegu lokun. 

Fréttamiðlar vestanhafs hafa greint frá því að fjöldi starfsfólks á Twitter hefur sagt störfum sínum lausum eftir að frumkvöðullinn og furðufuglinn Elon Musk tók við stjórnartaumum fyrirtækisins og sagði starfsfólki að gera ráð fyrir „löngum vinnudögum og miklu álagi“ ellegar taka pokann sinn. 

Í tilkynningunni til starfsmanna segir: „Vinsamlegast vinnið áfram eftir stefnu og fyrirmælum fyrirtækisins, ræðið ekki trúnaðarmál þess á samfélagsmiðlum, við fjölmiðla eða annars staðar.“

Haraldur Þorleifsson, stjórnandi á Twitter, tísti í morgun „Goodbye old frens“ með bláu hjarta-tjákni, einkennislit Twitter. Líklegt er að hann beini skilaboðunum, sem þýða Bless gömlu vinir til samstarfsfólks sem hefur horfið á braut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert