Ætluðu að myrða táning á sjúkrahúsi

Sérsveit að störfum í Ekvador.
Sérsveit að störfum í Ekvador. AFP

Lögregluyfirvöld í Ekvador hafa handtekið sjö manns eftir að gengi í Ekvador réðst inn á sjúkrahús í þeim tilgangi að myrða 17 ára táning sem var þar í aðhlynningu.

BBC greinir frá.

Gengið, sem hélt m.a. hjúkrunarfræðingum spítalans í gíslingu, skiptist á skotum við lögreglu þar til lögreglan náði yfirhöndinni og handtók mennina. Talið er að táningurinn eigi aðild að öðru gengi og að hinir handteknu hafi ætlað sér að ráða hann af dögum, en hann var lagður inn á gjörgæslu vegna skotsára. Mönnunum tókst ekki ætlunarverk sitt.

Ofbeldi tengt gengjum hefur stóraukist í Ekvador síðastliðin ár og hefur það sömuleiðis orðið grófara. Talið er að rekja megi þessa aukningu að hluta til aukinna umsvifa mexíkóskra glæpagengja í landinu.

Guillermo Lasso, forseti Ekvador, þakkaði lögreglunni fyrir skjót viðbrögð og birti á Twitter myndband sem sýnir frá aðgerðum lögreglunnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert