Samþykktu frumvarp um samkynja hjónabönd

ÞingkonanTammy Baldwin ræðir við blaðamenn. Chuck Schumer og Jon Tester …
ÞingkonanTammy Baldwin ræðir við blaðamenn. Chuck Schumer og Jon Tester spjalla saman fyrir aftan hana. AFP/Drew Angerer/Getty

Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt frumvarp sem verndar samkynja hjónabönd í landinu. Þingmenn bæði Demókrata- og Repúblikanaflokksins greiddu atkvæði með frumvarpinu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í yfirlýsingu að með þessu séu Bandaríkin nálægt því að „staðfesta grundvallarsannleikann: ást er ást, og Bandaríkjamenn ættu að hafa rétt til að ganga í hjónaband með manneskjunni sem þeir elska“.

Öldungadeildin samþykkti með 61 atkvæði gegn 36 að senda frumvarpið aftur til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Forseti deildarinnar, Nancy Pelosi, segir að það verði samþykkt í næstu viku. Eftir það verður það sent Biden til undirritunar.

Chuck Schumer, leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni, sagði atkvæðagreiðsluna „tímamóta skref fyrir aukið réttlæti handa hinsegin Bandaríkjamönnum“.

Tólf repúblikanar greiddu atkvæði með frumvarpinu, sem lengi hefur verið deilt um í Bandaríkjunum.

Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði árið 2015 um hjúskaparrétt fólks af sama kyni. Eftir að rétturinn afnam stjórnarskrárbundinn rétt til þungunarrofs höfðu demókratar áhyggjur af því að samkynja hjónabönd færu sömu leið. Þeir vildu því flýta frumvarpinu í gegnum þingið á meðan þeir eru þar í meirihluta.

mbl.is