Hafna úrskurði WTO um refsitolla

Starfsmenn í stálverksmiðju í Ohio ríki í Bandaríkjunum.
Starfsmenn í stálverksmiðju í Ohio ríki í Bandaríkjunum. AFP/Megan Jelinger

Yfirvöld í Washington fordæmdu úrskurð Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í dag um refsitolla Bandaríkjanna á innflutningi á stáli frá Kína og öðrum löndum, sem settir eru á grundvelli þjóðaröryggis.

Trump setti tollana á og Biden hélt þeim áfram

Fyrrverandi ríkisstjórn Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, setti tolla á innflutning á stáli og áli frá Kína, Noregi, Sviss og Tyrklandi og hefur arftaki hans, Joe Biden, haldið þeim áfram.
„Bandaríkin hafna harðlega gallaðri túlkun og niðurstöðum í skýrslum sérfræðinganefndar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem birtar voru í dag...“ sagði Adam Hodge, talsmaður Katherine Tai, viðskiptafulltrúa Bandaríkjanna, í yfirlýsingu í dag.

Málefni þjóðaröryggis fyrir utan valdsvið WTO

„Bandaríkin hafa haft þá skýru og afdráttarlausu afstöðu í rúm 70 ár að ekki sé hægt að endurskoða þjóðaröryggismál í lausn deilumála innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.“
Alþjóðaviðskiptastofnunin í Genf hafi enga heimild til efast um ákvarðanir Bandaríkjanna til að bregðast við ógnum við þjóðaröryggi,“ bætti hann við.

Aðalritari Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) Ngozi Okonjo-Iweala á leiðtogafundi í Berlín í …
Aðalritari Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) Ngozi Okonjo-Iweala á leiðtogafundi í Berlín í lok nóvember. AFP/Tobias Schwarz

Samræmist ekki GATT-samningnum

Ágreiningsnefnd WTO komst að þeirri niðurstöðu að aðgerðirnar, sem Bandaríkin beittu, væru ekki í samræmi við ýmsar greinar hins almenna GATT-samnings um tolla og viðskipti.
Nefndin taldi einnig að þetta ósamræmi ætti ekki við um undanþágur frá öryggisreglum GATT-samningsins þar sem þeim var ekki beitt á stríðstímum eða þegar um alvarlega spennu á alþjóðavettvangi væri að ræða.
„Nefndin leggur til að Bandaríkin geri ráðstafanir og breyti þeim atriðum sem samræmast ekki reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt GATT-samningnum frá 1994.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert