Ný orrustuþota les hugsanir

Svona er gert ráð fyrir að skrokkur Tempest muni líta …
Svona er gert ráð fyrir að skrokkur Tempest muni líta út en enn þá er meira en áratugur í að þessi nýja orrustuþota verði til þjónustu reiðubúin. Tölvuteikning/Breska varnarmálaráðuneytið

Þeir flugmenn konunglega breska flughersins sem flugu annáluðustu orrustuflugvélum síðari heimsstyrjaldarinnar, Spitfire, höfðu á orði að stjórntæki þessa afkvæmis hönnuðarins Reginald Mitchell væru svo næm að vélin væri eins og framlenging á þeirra eigin útlimum.

Hönnuðir nútímans taka hins vegar nýtt skref í þessum efnum og mega orrustuflugmenn fjórða áratugar þessarar aldar reikna með enn meiri nánd við flugfar sitt.

Það mun lesa hugsanir þeirra

Hér segir af Tempest, orrustuþotu sem Bretar, Ítalir og Japanar sameina krafta sína við að smíða og er reiknað með að byrji í tilraunaflugi árið 2027. Er þar á ferð samstarf ekki ómerkari risa en BAE Systems og Rolls-Royce í Bretlandi, Leonardo á Ítalíu og japanska bifreiðaframleiðandans Mitsubishi en European Missiles Group, eða MBDA, sem er í eigu Airbus, BAE og Leonardo, kemur einnig að smíðinni.

Breski forsætisráðherrann Rishi Sunak hefur nú formlega kynnt þetta samstarf þjóðanna við smíði nýrrar fullkominnar orrustuþotu sem nýtir gervigreind sem stjórntæki og mun geta borið fullkomnustu vopn, svo sem hljóðfrá flugskeyti. Ekki er gert ráð fyrir að Tempest hefji þjónustu fyrr en um miðjan fjórða áratuginn, eftir rúmlega tíu ár, en sem fyrr segir hefst tilraunaflug samkvæmt áætlun árið 2027.

Ímynduð Tempest-þota á flugi yfir London, gert er ráð fyrir …
Ímynduð Tempest-þota á flugi yfir London, gert er ráð fyrir að tilraunaflug hefjist árið 2027. Tölvuteikning/PA Media

Er Tempest ætlað að leysa af hólmi hina bresk-þýsk-ítalsk-spænsku Eurofighter Typhoon sem fyrst var flogið í mars 1994 og lét Sunak ráðherra hafa eftir sér að væntanlegt samstarf ríkjanna þriggja sem standa munu að Tempest muni „verja Bretland hinum nýju ógnum er nú steðja að“.

Tekur stjórnina missi flugmaður meðvitund

Hönnun Tempest er þegar komin á rekspöl og eru markmið höfunda hennar svo háleit að þotan muni geta gripið inn í þegar flugmaður hennar er undir ofurálagi og jafnvel annast flugstjórn algjörlega sjálf, rétt eins og sjálfakandi bifreiðar sem nú ryðja sér til rúms.

Skynjarar í hjálmi flugmannsins munu nema heilabylgjur og aðra líkamsstarfsemi og vista í gagnagrunni sem með tímanum verði til þess að gervigreindarheili þotunnar muni læra að bregðast rétt við á ögurstundu, svo sem missi flugmaður meðvitund vegna þess gríðarlega þrýstings sem hann verður fyrir í kröppum beygjum og við skyndilega hæðarbreytingu.

Fáum ætti að koma á óvart að hönnun og smíði þessa tæknilega rothöggs er engan veginn ókeypis, ekki frekar en nýjasta flaggskip Bandaríkjamanna, F-35-þotan sem er dýrasta verkefni í sögu varnarmálaráðuneytisins Pentagon þar í landi. Það er ástæðan fyrir því að Bretar leituðu samstarfslanda við verkefnið. Ítalir voru tilbúnir að vera með frá byrjun en Japanar komu að borðinu í sumar og er aðild þeirra talin herkænska Breta sem leitast nú við að styrkja tengsl sín í Asíu eftir að Kínverjar tóku að færa sig upp á skaftið.

Skapi þúsundir starfa

Ekki er útilokað að fleiri ríki bætist í hópinn en Frakkar, Þjóðverjar og Spánverjar hafa einnig tekið höndum saman við hönnun eigin þotu. Bretar horfa þó ekki eingöngu til heimavarna. Reiknað er með að smíði Tempest skapi þúsundir varanlegra starfa í Bretlandi auk þess að ýta undir útflutning vopnabúnaðar.

Sunak segir öryggi Bretlands ávallt í brennidepli. „Þess vegna verðum við að vera í fararbroddi í þróun varnartækni og alltaf skrefinu framar en þeir sem vilja okkur illt. [...] Næsta kynslóð orrustuþota mun verja okkur og bandamenn okkar og styrkja varnariðnað okkar, hún mun skapa störf samhliða því að vera lífsbjörg,“ segir ráðherra.

John Healey, skuggaráðherra varnarmála, kveður flokk sinn styðja samstarfið um smíði Tempest en minnir á að verkefnið þurfi að haldast í hendur við áætlanir um framtíð flughersins og gæta þurfi að því að engar tafir myndist við þjálfun orrustuflugmanna.

BBC

BBCII (umfjöllun í júlí)

The National

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert