Færri táningar myrtir í London

Sadiq Khan borgarstjóri tók til máls í gær ásamt lögreglustjóranum …
Sadiq Khan borgarstjóri tók til máls í gær ásamt lögreglustjóranum Sir Mark Rowley í kjölfar þess er lögreglan í London kynnti tölfræði manndrápa í borginni árið 2022 en þau hafa ekki verið færri síðan 2014. AFP

Manndrápum í bresku höfuðborginni London fækkaði milli áranna 2021 og 2022 samkvæmt tölfræði sem lögreglan þar hefur sent frá sér. Voru dráp í borginni 132 í hitteðfyrra en 109 á nýliðnu ári sem er lægsta talan í þeim efnum síðan árið 2014.

Vekur lögreglan sérstaka athygli á því að fórnarlömb á táningsaldri í fyrra voru 14, samanborið við 30 árið á undan. Níu manns létust af völdum skotsára í fyrra en 69 voru stungnir til ólífis.

Sir Mark Rowley lögreglustjóri lét þess getið við kynningu tölfræðinnar að hvert og eitt dauðsfall væri „einu of mikið“ en Sadiq Khan borgarstjóri heimsótti í fyrradag hnefaleikastöðina „Box Up Crime“ í Ilford sem hefur það hlutverk að kenna ungu fólki hnefaleika með það fyrir augum að forða því frá að lenda á refilstigu í lífinu.

„Þurfum samstarf eins og þetta“

„Þótt manndrápum hafi fækkað í fyrra förum við varlega í að fagna,“ sagði lögreglustjóri, „hvert einasta manndráp er skelfilegt, þarna eru fórnarlömb á bak við, ekki tölfræðin ein.“ Borgarstjóri sagði hins vegar að öruggari borg væri hans forgangsmál og þótt manndrápum hefði fækkað væri ofbeldistíðnin enn of há.

„Við erum lögreglan og við getum haldið ofbeldi í skefjum, við einbeitum okkur af öllu megni að því að handtaka þá sem hættulegastir eru [...] en við þurfum samstarf eins og þetta [við hnefaleikastöðina] þar sem einhver grípur þessa krakka á réttu augnabliki í lífi þeirra og gefur þeim tilgang,“ sagði Rowley lögreglustjóri enn fremur.

Breskir lögregluþjónar við störf. Manndrápum hefur fækkað í höfuðborginni en …
Breskir lögregluþjónar við störf. Manndrápum hefur fækkað í höfuðborginni en ofbeldistíðni er enn há að sögn lögreglustjóra. AFP

Benti hann á að London væri þrátt fyrir allt mjög örugg borg. Engin borg væri hin fullkomna í öryggislegu tilliti en væri litið til afbrotatölfræðinnar væri London borg þar sem öruggt væri að búa, starfa og njóta lífsins.

„Ég er með tugi þúsunda manna og kvenna sem eru einstakt fólk, því stendur ekki á sama og það vill skipta máli. Því miður er ég svo með nokkur hundruð sem ég þarf að sía út og ættu ekki að vera í lögreglunni. Þið fáið að heyra meira af því þegar það gerist. En þeir eru miklu miklu fleiri sem láta sér annt um borgarbúa en þeir skelfilegu einstaklingar sem hefðu aldrei átt að starfa í lögreglunni,“ sagði lögreglustjóri að lokum er hann boðaði hreinsanir í liði sínu.

BBC

BBCII (fíkniefni og samfélagsmiðlar undirrót drápa)

The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert