Mótmælendur meðal þeirra sem verða náðaðir

Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Íran.
Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Íran. AFP/Khameini.ir

Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, hefur samþykkt að náða fjölda fólks sem var handtekið vegna mótmæla eftir dauða hinn­ar 22 ára gömlu Mahsa Am­ini. 

The Guardian greinir frá því að náðunin gildir ekki um þá sem hafa tvöfalt ríkisfang, þá sem bíða dauðarefsingar, eða þá sem neita að játa brot sín eða sýna að þeir sjái eftir þeim. 

Þá mun náðunin ekki ná til þeirra sem hafa verið dæmdir fyrir samstarf með erlendum lögregluyfirvöldum eða til þeirra sem kveiktu í opinberum byggingum. 

Þeir sem kenna sig við hópa sem eru „fjandsamlegir Íslamska lýðveldinu“ munu heldur ekki fá náðun. 

Miðað að ungu fólki 

Talið er að aðgerðin sé miðuð að ungu fólki sem hafi ekki sterkar pólitískar skoðanir en hægt sé að segja að hafi látið til leiðast að taka þátt í mótmælum vegna tilfinninga eða erlends áróður á samfélagsmiðlum. 

Yfirvöld hafa ekki gefið út nákvæma tölu á hversu margir verða látnir lausir úr haldi.

Mannréttindasamtök telja að um 20 þúsund manns hafi verið handtekin vegna mótmælanna sem hófust í september og þá hafa fjórir verið teknir af lífi. 

mbl.is