Tveir lögregluþjónar skotnir til bana

Kanadískur lögreglumaður að störfum.
Kanadískur lögreglumaður að störfum. AFP

Tveir lögregluþjónar voru skotnir til bana þegar þeir fóru í útkall í heimahús snemma í gær í kanadísku borginni Edmonton.

Lögregluþjónarnir fóru í íbúð í hverfinu Inglewood eftir að neyðarkall barst vegna „fjölskyldudeilu“ og voru skotnir af manni í íbúðinni, að sögn lögreglustjórans Dale McFee.

„Á þessari stundu bendir allt til þess að þeim hafi ekki gefist tækifæri til að beita skotvopnum sínum,“ sagði hann og bætti við að lögregluþjónarnir hefðu eingöngu verið að sinna starfi sínu.

„Þetta er ólýsanlegt. Það er ekki hægt að ímynda sér þetta, Þetta er hryllilegt og algjör harmleikur,“ sagði hann. „Við erum öll að syrgja þá.“

Lögregluþjónarnir, 30 og 35 ára, voru fluttir á sjúkrahús með hraði þar sem þeir voru úrskurðaðir látnir.

Grunaði skotmaðurinn fannst látinn í íbúðinni og svo virðist sem hann hafi framið sjálfsvíg.  

mbl.is