Í lífstíðarbanni í matvöruverslun

Stilla úr öryggismyndavél í ICA-versluninni í Svíþjóð var meðal gagna …
Stilla úr öryggismyndavél í ICA-versluninni í Svíþjóð var meðal gagna dómsmáls sem snerist um búðarhnupl mannsins. Hann var sýknaður en er í ævilöngu banni í versluninni. Mynd/Sænska lögreglan

Norðmaður á sextugsaldri, sem handtekinn var í Värmland í Svíþjóð á fimmtudaginn í kjölfar þess er niðurbútað lík sambýliskonu hans fannst í frystikistu á heimili hans, reynist eiga sér mun margbrotnari afbrotaferil en norskum fjölmiðlum tókst að grafa upp í fréttaflutningi sínum um helgina.

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í dag var maðurinn úrskurðaður í 14 daga gæsluvarðhald í héraðsdómi í gær. Lýsti hann sig þar saklausan af manndrápi eftir því sem verjandi hans, Stefan Liliebäck, greindi frá, en játaði á sig vanvirðandi meðferð líks.

Sambýliskonan, sem var norsk eins og grunaði, var á sjötugsaldri og hafði hennar verið saknað um árabil, hafði norsk fjölskylda hennar meðal annars gert sér ferð til Svíþjóðar til að leita að henni. Bráðabirgðalíkskoðun bendir til þess að konan hafi látið lífið í september 2018 og hafi þá, reynist það endanleg niðurstaða, legið í frystikistunni í hálft fimmta ár.

Nauðganir og strípihneigð

Eins og mbl.is hafði eftir sænska dagblaðinu Aftonbladet í fréttinni sem hlekkjuð er við hér að ofan sögðu nágrannar mannsins hann hafa verið hlédrægan og ómannblendinn, gluggatjöld á heimili hans hefðu jafnan verið dregin fyrir. Einn þeirra mundi eftir að hafa séð hann með konu en síðan væru mörg ár.

Maðurinn og sambýliskona hans á ódagsettri mynd sem vinafólk þeirra …
Maðurinn og sambýliskona hans á ódagsettri mynd sem vinafólk þeirra lét Aftonbladet í té. Fólkið er í áfalli eftir að konan fannst í bútum í frystikistunni á heimili mannsins þar sem hún hefur líklega legið síðan haustið 2018. Ljósmynd/Úr einkasafni

Greindi norska ríkisútvarpið NRK frá því að grunaði hefði hlotið dóma fyrir ölvunarakstur, akstur án ökuréttinda og búðahnupl. Í dag kveðst NRK hafa fleiri dóma undir höndum og greinir frá brotaferli í Noregi, en maðurinn flutti þaðan yfir til nágrannaríkisins árið 2009.

Á tíunda áratugnum, þegar maðurinn var á þrítugsaldri, hlaut hann fimm ára dóm fyrir tvær nauðganir og eina nauðgunartilraun. Í öðru máli fór hann óboðinn inn í svefnherbergi konu á níræðisaldri og hélt kodda fyrir vitum hennar svo hún óttaðist um líf sitt.

Á geðdeild vegna strípihneigðar

Eftir að komið var fram á þessa öld var maðurinn nauðungarvistaður nokkrum sinnum á geðdeild vegna strípihneigðar. Snerist eitt tilfellið um að hann fór ítrekað að heimili 76 ára gamallar konu og beraði sig þar.

Dóminn fyrir ölvunarakstur hlaut hann árið 2006. Lauk akstrinum með því að hann ók út af veginum í beygju og út í á. Reyndi hann í kjölfarið að forða sér af vettvangi en var handtekinn í nágrenninu og reyndist þá buxnalaus og með áverka á höfði.

Afbrotin sem NRK greindi frá um helgina voru öll framin í Svíþjóð eftir að maðurinn flutti þangað, ölvunarakstur, akstur án ökuréttinda og hnupl í ICA-matvöruverslun í Årjäng. Hafði maðurinn þar reynt að hafa á brott með sér áburð gegn mýbiti án þess að greiða fyrir hann og var ákært í málinu. Var hann sýknaður fyrir héraðsdómi á þeirri forsendu að ekki sást nógu greinilega á upptöku öryggismyndavélar að hann hefði augljóslega falið þýfið innanklæða. Hins vegar uppskar hann ævilangt bann við að koma á ný inn í verslunina.

Verjandi tjáir sig ekki um efni yfirheyrslna

Í dómunum kemur fram að maðurinn hafi hlotið fullar örorkubætur um lengri tíma en sambýliskona hans, sem hvarf árið 2018 og fannst í frystikistunni í síðustu viku, hafði, eftir því sem NRK hefur upplýsingar um, þegið greiðslur frá Noregi sem miðað við mánaðarlega upphæð hafi líkast til verið ellilífeyrir.

Verjandinn Liliebäck neitar að tjá sig nokkuð um hvað grunaði hefur látið uppi í yfirheyrslum en Christina Hallin, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Bergslagen í Svíþjóð, segir lögregluna nú vinna úr því sem fram hefur komið við yfirheyrslur auk þess sem beðið sé eftir nákvæmari upplýsingum um andlátsstund konunnar og dánarorsök.

Norska rannsóknarlögreglan Kripos segir aðspurð að sænsk lögregluyfirvöld hafi ekki látið í sér heyra í tengslum við rannsókn málsins.

NRK

NRKII (fjölskyldan leitaði konunnar)

SVT

Aftonbladet (vinafólk felmtri slegið)

mbl.is