Verkföll lama Þýskaland

Í dag er vekfallsdagur, stendur á skiltum verkalýðsfélaganna.
Í dag er vekfallsdagur, stendur á skiltum verkalýðsfélaganna. AFP/Tobias Schwarz

Umfangsmikil verkföll í Þýskalandi urðu til þess að stór hluti flugsamgangna og almenningssamgangna í landinu lá niðri í dag. Fara starfsmenn fram á hærri laun vegna mikillar verðbólgu undanfarið.

Starfsmenn flugvalla, hafna, lestarfyrirtækja og neðanjarðalestakerfisins, auk strætóbílstjóra víða um landið lögðu niður störf í dag, en um er að ræða sólarhringsverkfall á vegum verkalýðsfélaganna Verdi og EVG. Var haft eftir forseta Verdi, Frank Werneke, að verkalýðsátök án afleiðinga væru bitlaus.

Flestum flugferðum var aflýst í dag vegna verkfallsins eins og …
Flestum flugferðum var aflýst í dag vegna verkfallsins eins og sjá mátti á flugvellinum í Frankfurt am Main.out. AFP/Daniel Roland

Hann játaði að verkfallið myndi valda vandræðum fyrir marga á leið til vinnu og ferðalanga. Hins vegar væri eins dags verkfall, sem leiddi vonandi til þess að niðurstaða myndi nást, betra en margra vikna barátta með tilheyrandi aðgerðum.

Brottfaraskjáir á stærstu flugvöllum landsins voru flestir fullir af tilkynningum um aflýst flug og aðalbrautarstöðin í Berlín, sem jafnan er full af fólki á ferðinni, var að mestu tóm í dag.

AFP fréttaveitan hafði eftir starfsmönnum á flugvellinum í München og hjá opinberri skrifstofu flutninga að starfsmenn væru til í frekari aðgerðir ef þörf væri á.

Volker Wissing, samgönguráðherra Þýskalands, biðlaði til stéttarfélaganna í dag að heimila flugferðir seint í kvöld svo að strandaglópar á flugvöllum kæmust til síns heima. Þá skipaði hann einnig sambandsríkjum Þýskalands að heimila útkeyrslu á vörum í gær, sunnudag, svo ekki kæmi til vöruskorts.

Innan vébanda Verdi eru um 2,5 milljónir opinberra starfsmanna, en hjá EVG eru félagsmenn um 230 þúsund og starfa þeir aðallega hjá lestar- og strætófyrirtækjum.

Starfsmenn, sem heyra undir verkalýðsfélagið Verdi í Frankfurt am Main, …
Starfsmenn, sem heyra undir verkalýðsfélagið Verdi í Frankfurt am Main, voru meðal þeirra sem fóru í verkfall í dag. AFP/Andre Pain

Verdi fer fram á 10,5% hækkun launa, en EVG fer fram á 12% hækkun. Óvenjulegt er að félög fari í sameinaðar aðgerðir sem þessar í Þýskalandi, en þær eru taldar til marks um hversu illt hljóð er komið í viðræður um launahækkanir til að mæta aukinni verðbólgu.

Hingað til hafa ríkið, sambandsríkin og sveitarfélög hafnað kröfum verkalýðsfélaganna, en þess í stað boðið 5% hækkun, auk tveggja eingreiðsla, annars vegar upp á 1.000 evrur og hins vegar 1.500 evrur á þessu ári og því næsta.

Talið er að um 380 þúsund flugfarþegar hafi orðið fyrir áhrifum af verkfallinu. Hafa vinnuveitendur sakað verkalýðsfélögin um að ýta undir höfrungahlaup launa og verðhækkana sem muni aðeins leiða til meiri verðbólgu, en verkalýðsfélögin telja hins vegar að umbjóðendur þeirra hafi verið látnir taka á sig þyngri byrðar vegna hækkandi kostnaðar.

Verðbólga í Þýskalandi mældist 8,7% í febrúar.

Lestar stóðu óhreyfðar við aðalbrautarstöðina í München í morgun.
Lestar stóðu óhreyfðar við aðalbrautarstöðina í München í morgun. AFP/Christof Stache
mbl.is