Myndi ekki kjósa hann þó hann væri faðir minn

Kjörstaðir hafa opnað í Tyrklandi.
Kjörstaðir hafa opnað í Tyrklandi. AFP/Can Erok

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, þarf að stilla væntingum sínum í hóf hvað stuðning varðar í kosningunum frá þeim svæðum í Tyrklandi sem urðu hvað verstu úti í jarðskjálftanum sem reið yfir í febrúar.

Í morgun opnuðu kjörstaðir í þing- og forsetakosningum.

„Við þurfum á breytingum að halda, við erum komin með nóg,“ sagði Mehmet Topaloglu, íbúi í tyrknesku borginni Antakya, en hann var með þeim fyrstu til að greiða atkvæði í forsetakosningunum í morgun.

Yfir 50 þúsund manns fórust í jarðskjálftanum í febrúar í Tyrklandi. Skjálftarnir vörpuðu ljósi á slæmt ástand innviða í landinu og að mati Topaloglu þá gæti þessi hörmulegi atburður, í bland við bágt efnahagsástand, bundið endir á forsetatíð Erdogan.

„Ég kaus Erdogan fyrstu tvö kjörtímabilin hans en ég myndi ekki kjósa hann aftur, jafnvel þó hann væri faðir minn,“ sagði Topaloglu, við blaðamann AFP-fréttastofunnar.

Telja Erdogan hafa misst fylgi

Til að komast á kjörstað í Antakya þurftu mæðgurnar Semra Karakas og Aylin að sitja í 14 klukkustundir í rútu. Fjölskylda þeirra misstu heimili sitt í borginni í jarðskjálftanum og þurftu þær í kjölfarið að flýja til Antalya.

Aylin sagði jarðskjálftann og ófullnægjandi viðbragð stjórnvalda hafa staðfest val sitt milli frambjóðendanna tveggja, Erdogan og Kemal Kilicdaroglu.

„Ríkið kom okkur ekki til hjálpar. Þau komu þremur eða fjórum dögum síðar,“ sagði Aylin, sem mun ekki styðja sitjandi forseta. Telur hún sömuleiðis að Erdogan hafi misst mikið fylgi meðal íhaldssamra kjósenda á svæðinu.

Deryer Deniz heilbrigðisstarfsmaður hefur búið við þröngar aðstæður í tjaldi eftir að hafa misst heimili sitt í febrúar. Hún segir kosningarnar í ár mikilvægar og telur sömuleiðis að Erdogan hafi misst mikið fylgi meðal þeirra sem hafa haldið honum við völd undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert