Jómfrúarferð heimagerðrar kínverskrar flugvélar

Vinna við að koma Comac C919 hefur staðið yfir í …
Vinna við að koma Comac C919 hefur staðið yfir í meira en áratug en fjallað var ítarlega um vélina á mbl.is í júlí 2014. AFP

Fyrsta farþegaflugvélin frá kínverska framleiðandanum Comac flaug jómfrúarferð með farþega í gær. Vélin ber heitið C919 og tekur 164 farþega í sæti. Kínverjar hafa um áratugaskeið bundið miklar vonir við innlenda farþegaflugvélaframleiðslu.

Flugvélin flaug í morgun frá Sjanghaí til Peking með 130 farþega en ferðalagið tók um þrjár klukkustundir.

Nota vestræna íhluti

Þó vélin sé sett saman í Kína treystir framleiðandi hennar að miklu leyti á íhluti frá vestrænum framleiðendum. Þar á meðal vélina og flugrafeindabúnaðinn.

Ríkisstyrkta flugfélagið China Eastern Airline hefur nú þegar pantað fimm vélar. Comac gerir ráð fyrir því að geta framleitt 150 vélar á ári innan fimm ára. 

Xi Jinping, forseti Kína, hefur miklar mætur á Comac og segir fyrirtækið eitt af framsæknustu verkefnum Kínverja. Aðdragandinn að jómfrúarferðinni hefur þó reynst lengri en marga grunaði. Árið 2014 var gert ráð fyrir því að fyrsta ferðin yrði árið 2015 og að afhending til kaupenda gæti hafist árið 2018.

Að sögn talsmanna Comac hafa þeim borist 1.200 pantanir eftir að þeir kynntu C919 þó BBC haldi því fram að sá fjöldi sé dreginn í efa af sérfræðingum sem telja að þar séu viljayfirlýsingar taldar með pöntunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert