Á sér enga undankomuleið í Georgíu

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, virðist ekki eiga sér undankomuleið …
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, virðist ekki eiga sér undankomuleið í Georgíuríki. Búist er við því að hann muni gefa sig fram við lögreglu í Atlanta í dag. AFP/Jim Watson

Búist er við því að Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, muni gefa sig fram við lögreglu í Atlanta í Georgíuríki Bandaríkjanna í dag. Verður hann þar handtekinn og hafa fangelsismálayfirvöld gefið það út að tekin verði af honum fingraför og sakborningsmynd smellt af honum. 

Þetta er fjórða ákæran sem Trump yfir höfði sér en í Georgíuríki er hann ákærður, ásamt 18 öðrum, fyrir að hafa reynt að snúa við úrslitum forsetakosninganna 2020. 

Þó Trump verði handtekinn í Fulton-fangelsinu í Atlanta í dag verður hann laus gegn tryggingu sem dómari hefur ákveðið að nemi 200 þúsund bandaríkjadölum. 

Trump hefur einnig verið ákærður í Flórídaríki, New York-ríki og í Washington DC. Samanlagt er hann ákærður í 91 liðum.

Í Flórída, New York og Washington hefur Trump sloppið við sakborningsmynd. Hann virðist enga undankomuleið sér eiga í Georgíuríki.

Fjölmennt fyrir utan fangelsið

Fjöldi fólks hefur þegar safnast saman fyrir utan Fulton-fangelsi. Sumir eru stuðningsmenn Trumps en aðrir ekki. Lögregla vinnur nú að því að afmarka svæðið til að halda bæði almenningi og fjölmiðlum frá innganginum að fangelsinu.

Fyrrverandi lögmaður Trumps, Rudy Giuliani, gaf sig fram við lögreglu í Atlanta í gær. Þá hafa aðrir lögmenn hans, Sidney Powell og Jenna Ellis einnig gefið sig fram. Frestur til að gefa sig fram við lögreglu vegna ákæranna rennur út á morgun. 

Sidney Powell, Rudy Giuliani og Jenna Ellis voru öll lögmenn …
Sidney Powell, Rudy Giuliani og Jenna Ellis voru öll lögmenn Donalds Trump. Af þeim var tekin sakborningsmynd í fangelsinu í gær og má ætla að mynd verði tekin af Trump í dag. AFP/Lögreglustjórinn í Fulton-sýslu

Mætti ekki í kappræðurnar

Trump býður sig nú fram í forvali Repúblikana til forsetakosninganna á næsta ári. Í gær fóru fram kappræður frambjóðendanna á milli en forsetinn fyrrverandi lét ekki sjá sig þar. 

Hann náði að stela athyglinni frá kappræðunum en í gærkvöldi var veitti hann Tucker Carlson viðtal og var því streymt á samfélagsmiðlinum X, sem áður hét Twitter. 

Skaut hann þar föstum skotum að andstæðingum sínum, en hann taldi sig ekki þurfa að taka þátt í kappræðunum vegna þess hve mikið forskot hann hefur í forvalinu sem stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert